Viðskipti innlent

Rússar vinna að frumvarpi um aðgerðir gegn Íslandi

Atli Ísleifsson skrifar
Mjög líklegt er talið að Vladimír Pútín Rússlandsforseti styðji hugmyndir ríkisstjórnarinnar.
Mjög líklegt er talið að Vladimír Pútín Rússlandsforseti styðji hugmyndir ríkisstjórnarinnar. Vísir/AFP
Rússneska landbúnaðarráðuneytið vinnur nú að gerð frumvarps um innflutningsbann á ákveðnum matvörum frá sjö Evrópuríkjum, þar á meðal Íslandi.

Er það gert vegna stuðnings ríkjanna við viðskiptaþvinganir aðildarríkja Evrópusambandins og Bandaríkjanna gegn Rússlandi.

AP greinir frá því að innflutningsbannið nái til sjö Evrópuríkja sem standa utan Evrópusambandsins – Albaníu, Svartfjallalandi, Noregi, Íslandi, Liechtenstein, Úkraínu og Georgíu.

Rússneska fréttastofan RIA Novosti hefur eftir talsmanni ráðuneytisins að ríkisstjórnin vinni nú að úrfærslunni og bætir við að enn eigi eftir að ákvarða hvaða dag bannið taki gildi. „Um það er nú rætt hvaða lönd verði á listanum.“

Dmitri Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, sagði fyrr í dag að ríkisstjórnin myndi ræða við Vladimír Pútín forseta um að útvíkka innflutningsbannið þannig að það myndi ná til fleiri ríkja.

Russia Today segir mjög líklegt að Pútín styðji hugmyndir ríkisstjórnarinnar.

Innflutningsbanni Rússa var komið á í ágúst á síðasta ári og var nýlega framlegt til ágústmánaðar á næsta ári. Var því ætlað sem svar við þær viðskiptaþvinganir sem aðildarríki ESB og Bandaríkin settu á Rússland.

Á vef Hagstofunnar segir að íslensk fyrirtæki hafi flutt út vörur til Rússlands fyrir 7 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×