Sport

Vetrarólympíuleikarnir 2022 fara fram í Peking

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Yao Ming var hæst ánægður er valið var tilkynnt í dag.
Yao Ming var hæst ánægður er valið var tilkynnt í dag. Vísir/getty
Ólympíunefndin tilkynnti í dag að Vetrarólympíuleikarnir 2022 myndu fara fram í kínversku borginni Peking. Höfðu nefndarmeðlimir aðeins tvær borgir til að velja úr eftir að aðrar borgir drógu umsókn sína til baka.

Hafði Peking betur gegn Almaty, stærstu borg Kasakstan. Verður Peking fyrsta borgin sem heldur bæði Sumar- og Vetrarólympíuleikana en aðeins sjö ár eru síðan Sumarólympíuleikarnir fóru fram í Peking þar sem íslenska karlalandsliðið í handbolta nældi í silfur.

Verður þetta í fyrsta sinn sem Peking heldur Vetrarólympíuleika enda borgin ekki þekkt fyrir vetraríþróttir en þetta verða aðrir Vetrarólympíuleikarnir í röð sem fara fram í Asíu á eftir leikunum í Pyeonchang í Suður-Kóreu 2018.

Upphaflega voru einnig fjórar borgir í Evrópu sem sóttu um að halda leikana en allar drógu þær umsókn sína til baka vegna fjárhagslega eða pólitískra ástæðna.

Stokkhólmur, Lviv, Krakow og Osló hættu allar við umsókn sína eftir leikana í Sochi 2014 en talið var líklegt að Osló yrði fyrir valinu. Um var að ræða sigursælustu þjóðina í sögu leikanna sem hélt Vetrarólympíuleikana 1994 í Lillehammer með glæsibrag.

Sagði forráðamaður umsóknar Osló að kröfur Ólympíunefndarinnar væru fáránlegar er hann tók til baka umsókn borgarinnar. Töldu kröfur Ólympíunefndarinnar alls 7000 blaðsíður.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.