Fótbolti

Punyed og félagar eiga enn veika von

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jamaíkumenn fagna í nótt.
Jamaíkumenn fagna í nótt. Vísir/Getty
Stjörnumaðurinn Pablo Punyed var í byrjunarliði El Salvador sem tapaði fyrir Jamaíku í B-riðli Gullbikarsins í nótt.

Jamaíka vann með marki Gareth McCleary á 72. mínútu en Pablo komst nálægt því að skora í uppbótartíma fyrri hálfleiks en markvörðurinn Ryan Thompson varði frá honum.

Jamaíka missti svo Darren Mattocks af velli með sína síðari áminningu í leiknum á 81. mínútu en El Salvador náði ekki að færa sér liðsmuninn í nyt.

El Salvador endaði í þriðja sæti riðilsins með tvö stig en í hinum leik riðilsins gerðu Kanada og Kostaríka markalaust jafntefli. Jamaíka varð efst með sjö stig og Kostaríka í öðru sæti með þrjú stig.

Tvö af liðunum þremur sem enda í þriðja sæti riðlanna komast áfram í 8-liða úrslitin. El Salvador þarf nú að bíða eftir úrslitum í leik Gvatemala og Kúbu en jafntefli í honum mun tryggja liðinu áframhaldandi þátttöku í keppninni. Vinni annað liðið leikinn er El Salvador úr leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×