Enski boltinn

Engar líkur á að Dzeko fari frá City

Anton Ingi Leifsson skrifar
vísir/getty
Edin Dzeko, framherji Manchester City, verður áfram hjá félaginu að sögn umboðsmanns hans, Irfan Redzepagic. Irfan er orðinn þreyttur á endalausu slúðri fjölmiðlamanna.

Bosníumaðurinn átti ekki fast sæti í byrjunarliði City á síðustu leiktíð, en hann skoraði einungis sex mörk í 31 leikj fyrrir félagið. Juventus og Atletico Madrid voru sögð áhugasöm um kappann, en þau buðu ekki í hann að sögn Irfan.

„Þegar þú lest fjölmiðlana er eins og það séu öll félög á eftir Dzeko. Einnig hef ég heyrt að félög í bosnísku úrvalsdeildinni séu einnig á eftir honum,” sagði Irfan í samtali við bosnískt dagblað.

„Alla daga er hann orðaður við einhver lið; fyrst var það Atletico Madrid, svo Juventus, svo Roma, Chelsea. Þetta eru allt sögusagnir og sögur sem fara á flug í hverjum glugga. Ég er orðinn þreyttur á að endurtaka að þessar sögur eru ekki réttar.”

„Hann hefur ekki neitað neinum tilboðum því hann hefur ekki fengið nein tilboð! Og það er sannleikurinn. Edin er með samning við Man City til 2018 og hann er ánægður hjá félaginu.”

„Margir hlutir spiluðu inní að hann náði sér ekki á strik á síðasta tímabili. Meðal annars tvenn meiðsli, en hann hefur ekki neina ástæðu að vera ósáttur hjá félaginu sem hann hefur unnið fjóra bikara með. Líkurnar á að hann sé að fara eru engar,” sagði hinn litríki Irfan Redzepagic að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×