Enski boltinn

Terry: Cech mun vinna 12-15 stig fyrir Arsenal á tímabili

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cech hefur fjórum sinnum orðið Englandsmeistari með Chelsea.
Cech hefur fjórum sinnum orðið Englandsmeistari með Chelsea. vísir/getty
John Terry, fyrirliði Englandsmeistara Chelsea, segir að markvörðurinn Petr Cech muni reynast Arsenal vel ákveði hann að ganga til liðs við Skytturnar eins og svo margt bendir til.

Cech, sem missti sæti sitt í byrjunarliði Chelsea í vetur, hefur verið sterklega orðaður við Arsenal í sumar og samkvæmt einhverjum heimildum hefur hann náð samkomulagi við Lundúnaliðið.

Í samtali við TalkSport hrósaði Terry Cech í hástert og sagði hann sannan atvinnumann.

„Hann mun styrkja Arsenal mikið og vinna 12-15 stig fyrir liðið á næsta tímabili,“ sagði Terry.

„Cech sýndi ótrúlega mikla fagmennsku á síðasta tímabili. Það er erfitt að sætta sig við bekkjarsetu en hann spilaði frábærlega þegar hann fékk tækifæri.

„Hann á mikið hrós skilið fyrir það. Við vitum að hann vill vera byrjunarliðsmaður en það vill enginn sjá hann yfirgefa félagið. Hans verður sárt saknað og hann mun styrkja hvaða lið sem er,“ sagði Terry ennfremur en hann og Cech hafa spilað saman hjá Chelsea síðan 2004.

Arsenal endaði í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili en Wojciech Szczęsny og David Ospina skiptu markvarðarstöðunni á milli sín í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×