Innlent

Veituskurður skaut ferðamanni skelk í bringu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Bíllinn endastakkst ofan í skurðinn.
Bíllinn endastakkst ofan í skurðinn. MYND/HAFÞÓR HREIÐARSSON
Betur fór en á horfðist þegar erlendur ferðamaður keyrði ofan í skurð við Húsavík í gær.

Ferðamaðurinn hafði verið að aka niður slóða austaní Húsavíkurhöfða og hafði í hyggju að keyra upp á Norðausturveg. Meðfram veginum er verið að grafa fyrir heitt og kalt vatn og skólp fyrir iðnaðarsvæðið á Bakka og keyrði maðurinn ofan í veituskurðinn.

Slóðinn sem um ræðir er ekki í alfaraleið og gerði lögreglan ekki ráð fyrir því að nokkur óhöpp myndu hljótast af honum.

Í samtali við 640 sagði lögreglan að ökumaðurinn hafi verið einn á ferð og ekki áttað sig á aðstæðum. Hann slasaðist ekki en var að vonum mjög brugðið. 

Bíllinn er þó talsvert krambúleraður, eins og myndin hér að ofan ber með sér.

Lögreglumaður sagði í samtali við Mbl.is í gær að um gáleysi ferðamannsins hefði verið að ræða þar sem hann hefði ekki áttað sig á því að framkvæmdir stæðu yfir. Slóðinn væri ekki ætlaður almennri umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×