Fótbolti

Mótherjar FH gerðu jafntefli í síðasta leiknum fyrir Evrópuslaginn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Toni Lehtinen bjargaði stigi í kvöld með fimmta marki sínu í deildinni.
Toni Lehtinen bjargaði stigi í kvöld með fimmta marki sínu í deildinni. mynd/heimasíða finnsku úrvalsdeildarinnar
Finnska úrvalsdeildarliðið Seinäjoen, SJK, gerði jafntefli á útivelli gegn Mariehamn, 1-1 í fimmtándu umferð deildarinnar í kvöld.

Þetta var síðasti deildarleikur liðsins áður en það mætir FH í fyrri leik liðanna í 1. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar á fimmtudaginn eftir viku.

SJK lenti undir strax á fyrstu mínútu leiksins þrátt fyrir að spila með fimm manna varnarlínu í kvöld, en sóknarsinnaði miðjumaðurinn Toni Lehtinen bjargaði stigi fyrir gestina með marki úr vítaspyrnu á 71. mínútu.

Með tapi hefði SJK misst þriðja sætið til Mariehamn en með sigri hefði það komist í 29 stig og skotist upp fyrir RoPS sem gerði einnig jafntefli í kvöld við Inter Turku, 1-1.

Þetta er fimmta markið hjá Lehtinen í deildinni, en hann og annar Finni, Akseli Pelvas, eru markahæstir hjá SJK með fimm mörk hvor.

SJK er nú búið að vinna tvo leiki, gera eitt jafntefli og tapa þremur í síðustu sex leikjum sínum í finnsku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×