Enski boltinn

Skorar Gylfi annað svona mark í kvöld? | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu í fyrri leiknum.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu í fyrri leiknum. Vísir/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Swansea City heimsækja Arsenal á Emirates-leikvanginn í kvöld í lokaleik 36. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar.

Swansea-liðið á möguleika á því að vinna sinn þriðja leik í röð í deildinni en liðið vann 2-0 sigur á Stoke City um síðustu helgi. Áður hafði liðið unnið 3-2 sigur á Newcastle en Gylfi skoraði bæði og lagði upp mark í þeim leik.

Swansea vann 2-1 sigur á Arsenal á Liberty-leikvanginum í fyrri leik liðanna í nóvember en Gylfi jafnaði þá metin í 1-1 eftir að Arsenal-liðið hafði komist yfir í leiknum.

Það gleyma fáir rigningunni sem var þegar leikurinn fór fram eða marki Gylfa sem kom beint úr aukaspyrnu á 75. mínútu leiksins.

Mark Gylfa kveikti í hans mönnum og Bafetimbi Gomis skoraði síðan sigurmarkið aðeins þremur mínútum síðar.

Hér fyrir neðan má sjá bæði myndband af glæsimarki Gylfa sem og viðtal við hann eftir leikinn.

Leikur Arsenal og Swansea hefst klukkan 19.00 og verður í beinni á Stöð 2 Sport 2 og Stöð 2 Sport 2 HD.

Markið hans Gylfa Í viðtali eftir leikinn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×