Sport

Sérstök verðlaun fyrir 719. sætið í Víðvangshlaupi ÍR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Daníel
Víðvangshlaup ÍR verður haldið í hundraðasta sinn á sumardaginn fyrsta í miðbæ Reykjavíkur en það hefur ekki fallið úr hlaup hjá ÍR-ingum frá árinu 1916.

Víðvangshlaup ÍR hefur sinn sess í íslensku íþróttalífi en engin önnur íþróttakeppni hefur farið fram samfellt í svo langan tíma hér á landi.

 

Fyrstu áratugina voru þátttakendur eingöngu karlkyns keppnishlauparar en með aukinni áherslu á jafnrétti og bætt heilsufar almennings undanfarna áratugi hefur almenn þátttaka af báðum kynjum aukist verulega um leið og þrautþjálfaðar konur keppa nú í jafn miklum mæli og karlar.

Alls hafa 9284 hlauparar tekið þátt í hlaupinu frá upphafi.  

Forskráning í 100. hlaupið er þegar hafin og er langt umfram björtustu vonir og því allar líkur á því að tíuþúsundasti hlauparinn komi í mark í 100. Víðavangshlaupi ÍR á sumardaginn fyrsta.

Hlaupari sem kemur í mark í 719. sæti mun fá sérstök verðlaun sem hlaupari númer 10.000 frá upphafi.

Hundraðasta Víðvangshlaup ÍR fer fram á nýrri og spennandi hlaupaleið sem hæfir ungum sem öldnum, skemmtiskokkurum sem og keppnishlaupurum.  

Hlaupaleiðin er 5 kílómetra löng og liggur um hjarta borgarinnar. Hlaupið er ræst í Tryggvagötunni og m.a. hlaupið upp Hverfisgötuna, niður Laugaveginn og umhverfis Tjörnina áleiðis í mark við Arnarhól.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×