Innlent

Aðstandendur sakborninga í Al-Thani málinu funduðu um dóminn í gær

Birgir Olgeirsson skrifar
Eiginkona Ólafs Ólafssonar skipulagði fundinn sem fram fór í gær en um 250 aðstandendur þeirra sem dæmdir voru í Al-Thani málinu mættu.
Eiginkona Ólafs Ólafssonar skipulagði fundinn sem fram fór í gær en um 250 aðstandendur þeirra sem dæmdir voru í Al-Thani málinu mættu. Vísir
Ingibjörg Kristjánsdóttir, eiginkona Ólafs Ólafssonar, sem nú situr í fangelsi á Kvíabryggju vegna þáttar síns í Al-Thani málinu, skipulagði fund fyrir aðstandendur þeirra sem dæmdir voru í málinu í gær. Viðskiptablaðið greinir frá þessu og hefur eftir heimildum.



Blaðið segir að fundurinn hafi farið fram á Hilton hótelinu í gær og að um 250 manns hafi mætt. Á fundinum hafi Hörður Felix Harðarson, verjandi Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, og Ólafur Eiríksson, verjandi Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns bankans, tekið til máls.



Viðskiptablaðið segir að Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt, hafi einnig komið á fundinn og tjáð sína skoðun á dómnum.

Samkvæmt heimildum Vísis var tilgangurinn að greina aðstandendum frá hlið þeirra sem dæmdur voru í þessu máli og fóru verjendur þeirra til að mynda ítarlega yfir málsmeðferð Al-Thani málsins.

Ólafur Ólafsson er stjórnarformaður og aðaleigandi Samskipa Holding B.V., hollensks eignarhaldsfélags Samskipa hf., en á meðal þeirra sem sóttu fundinn á Nordica voru starfsmenn Samskipa og þá var starfsmönnum fyrirtækisins á landsbyggðinni einnig boðið að fylgjast með í gegnum netútsendingu. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×