Enski boltinn

Spekingar Sky spá því að United nái ekki Meistaradeildarsætinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney og Ryan Giggs.
Wayne Rooney og Ryan Giggs. Vísir/AFP
Manchester United hefur gefið mikið eftir að undanförnu og leikur liðsins hefur ekki verið sannfærandi. Liðið hefur verið í hóp fjögurra efstu liðanna síðan í nóvember en knattspyrnuspekingar Sky hafa ekki trú að liðið endi í Meistaradeildinni.

Manchester United mætir Tottenham í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn en þar er á ferðinni einn af úrslitaleikjunum fyrir liðið í baráttunni um að komast í Meistaradeildina á næsta tímabili.

Það er hinsvegar nóg af erfiðum leikjum framundan hjá lærisveinum Louis van Gaal því við taka síðan leikir við Liverpool (úti), Aston Villa (heima), Manchester City (heima) og Chelsea (úti).

Sky Sport fékk skoðun þeirra Charlie Nicholas, Matt Le Tissier, Phil Thompson og Paul Merson á því hvort Manchester United liðið endi inn á topp fjögur.

Knattspyrnuspekingar Sky Sports:

Charlie Nicholas: Ekki hærra en fimmta sæti. Miðað við leikina sem liðið á eftir þá býst ég við því að liðið endi í sjötta sæti á eftir Southampton.

Matt Le Tissier: United endar í sjötta sæti. Staða liðsins kristallast í því að Antonio Valencia er að spila hægri bakvörðinn. Þú kemst upp með slíkt í stuttan tíma en ekki allt tímabilið og alls ekki þegar ekkert af miðvarðarpörum liðsins er að virka.

Phil Thompson: Arsenal og Liverpool munu slíta sig í burtu og skilja United eftir í fimmta sætinu. Ef United tapar á móti Tottenham þá geta þeir endalega kvatt möguleika sinn á því að ná fjórða sætinu.

Paul Merson: United á ekki lengur möguleika á því að enda meðal fjögurra efstu liðanna ef liðið tapar á móti Tottenham. Louis van Gaal veit ekki enn hvað sé besta liðið hans og United-leikmennirnir vita ekki enn fyrir hvað knattspyrnustjórinn þeirra stendur.



Það er hægt að sjá öll svörin þeirra með því að smella hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×