Enski boltinn

„Líkist Liverpool liðinu sem ég þekki“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carragher tekur viðtal við Steven Gerrard, sinn gamla fyrirliða hjá Liverpool.
Carragher tekur viðtal við Steven Gerrard, sinn gamla fyrirliða hjá Liverpool. Vísir/Getty
Liverpool vann um helgina góðan 2-0 sigur á Southampton og vann mikilvæg stig í baráttunni um að fera eitt fjögurra efstu liða deildarinnar og komast þar með í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.

Liðið hefur haldið hreinu í sjö leikjum á árinu en þeir Emre Can, Dejan Lovren og Martin Skrtel spiluðu saman í þriggja manna varnarlínu Liverpool gegn Southampton með góðum árangri. Það kerfi hefur gefið góða raun fyrir Brendan Rodgers og hans menn að undanförnu.

„Það sem mér líkar við er að Liverpool hefur ekki verið upp á sitt besta, hvorki í þessum lék né í síðustu viku [gegn Besiktas í Evrópudeildinni],“ sagði Jamie Carragher, fyrrum varnarmaður Liverpool og sérfræðingur á Sky Sports.

„Liðið hefur ekki endilega náð að koma Coutinho og Adam Lallana almennilega inn í leikinn og láta þá skapa vandræði fyrir andstæðinginn. En það hefur barist og náð að vinna leikina.“

„Liverpool hefur verið frábært í þessu nýja leikkerfi síðustu mánuðina, allt frá leiknum gegn Manchester United [í desember] þegar þessir hlutir breyttust. Kerfið, frammistaðan og úrslitin hafa verið frábær,“ sagði Carragher en síðan í umræddu tapi gegn Manchester United hefur Liverpool spilað átján leiki í öllum keppnum og tapað aðeins einum.

„Liðið hefur ekki spilað vel í síðustu tveimur leikjum en samt unnið. Það líkist Liverpool-liðinu sem ég þekki. Það er ekki hægt að spila vel í hverjum einasta leik en liðið er að ná góðum úrslitum engu að síður.“

„Ef lið spilar ekki vel þá reynir á varnarmennina. Liverpool hefur nú haldið hreinu í fimm deildarleikjum í röð og það er besti árangur liðsins síðan 1985.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×