Innlent

Færri andvígir inngöngu Íslands í ESB

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/afp
Hlutfall þeirra sem andvígir eru inngöngu Íslands í Evrópusambandið er sambærilegt og fyrir ári síðan. Af þeim sem tóku afstöðu í nýrri könnun MMR sögðust 48,5 prósent vera andvíg því að ganga í ESB, borið saman við 50 prósent í janúar 2014. Þá eru 33,3 prósent hlynnt því að Ísland gangi í sambandið samanborið við 32,3 prósent í fyrra. Þetta kemur fram á vef MMR en 1003 tóku þátt í könnuninni sem framkvæmd var 26-29. janúar.

Af þeim sem tóku afstöðu og voru hlynnt því að Ísland gangi í ESB voru hlutfallslega flestir á aldrinum 50-67 ára, eða 38,6 prósent. 34,8 prósent á aldrinum 30-49 ára voru hlynnt inngöngu og 29,1 prósent einstaklinga á aldrinum 18-29 ára. Einstaklingar yfir 67 ára aldri voru síst hlynntir því að ísland gangi í Evrópusambandið en af þeim sem tóku afstöðu og voru 68 ára eða eldri sögðust 26,6 prósent vera hlynnt inngöngu Íslands í ESB.

Íbúar höfuðborgarsvæðisins voru frekar hlynntir inngöngu Íslands í ESB en þeir sem búsettir voru á landsbyggðinni. Af þeim sem tóku afstöðu og voru búsettir á höfuðborgarsvæðinu sögðust 38,0% hlynnt því að Ísland gangi í ESB, borið saman við 25,7% þeirra sem búsettir voru á landsbyggðinni.

Þá hækkaði hlutfall þeirra sem hlynntir eru með auknum tekjum. Einnig var mikill munur á afstöðu fólks eftir því hvort það kvaðst styðja ríkisstjórnina eða ekki og nokkur munur var á afstöðu eftir stuðningi við stjórnmálaflokka. Mikill meirihluti þeirra sem studdu Samfylkinguna og Bjarta framtíð voru hlynnt inngöngu Íslands í ESB. Meirihluti þeirra sem studdu Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkinn voru andvíg inngöngu Íslands í ESB. Afstaða stuðningsfólks annarra flokka var ekki jafn einsleit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×