Innlent

Slysið í Taívan umhugsunarefni fyrir flugvallarvini hér heima

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
"Ykkur kann að finnast þetta óþægileg áminning, en hún á fullan rétt á sér engu að síður, þó að hún komi illa við tiltekinn málstað. En það er aumt ef ekki má draga lærdóma af því sem úrskeiðis fer í veröldinni,“ segir Ólína.
"Ykkur kann að finnast þetta óþægileg áminning, en hún á fullan rétt á sér engu að síður, þó að hún komi illa við tiltekinn málstað. En það er aumt ef ekki má draga lærdóma af því sem úrskeiðis fer í veröldinni,“ segir Ólína. Vísir
Ólína Þorvarðardóttir, varaþingmaður Samfylkingar í Norðvesturkjördæmi, telur að flugslysið í Taívan í nótt, þar sem a.m.k. 23 létust, ætti að verða umhugsunarefni fyrir flugvallarvini sem ekki geti hugsað sér að Reykjavíkurflugvöllur verði færður úr stað.

„Fyrir aldarfjórðungi varð skelfilegt flugslys 20m frá Hringbrautinni þegar 2ja manna ferjuflugvél fórst við brautarendann og skeikaði aðeins sekúndum að hún skylli niður á gatnamótunum hjá Njarðargötu þar sem tugir bíla biðu á rauðu ljósi,“ segir Ólína í umræðukerfi Vísis við frétt af slysinu í Taívan.

„Já, það fylgir því hætta að hafa flugvelli inni í miðjum borgum.“

Ekki eru allir sem taka undir með Ólínu í athugasemdakerfinu. Finnst sumum ummælin smekklaus og ekki við hæfi að draga fram rammpólitíska umræðu undir sorglegri frétt af mannskaða.

„Ykkur kann að finnast þetta óþægileg áminning, en hún á fullan rétt á sér engu að síður, þó að hún komi illa við tiltekinn málstað. En það er aumt ef ekki má draga lærdóma af því sem úrskeiðis fer í veröldinni,“ segir Ólína.

Þingmaðurinn minnir á að hún sé landsbyggðaþingmaður og sem slíkur ætti hún auðvitað að fara fremst í flokki flugvallarvina til að tryggja sér vinsældir. En það geri hún ekki.

„Því skynsemi og umyggja fyrir almannahag er þeirri hvöt yfirsterkari hjá mér í þessu máli.“


Tengdar fréttir

Mannskætt flugslys í höfuðborg Taívan

Að minnsta kosti 25 eru látnir og óttast er um fjölda til viðbótar eftir að farþegaflugvél hrapaði í á í höfuðborg Taívans, Taípei.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×