Innlent

Telur að yfirlýsing merki aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna
Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna
Formaður Vinstri grænna segir að viljayfirlýsing sem sem undirrituð var í vikunni í tengslum við kjarasamninga lækna sýni svart á hvítu að ríkisstjórnin stefni að auknum einkarekstri í heilbrigðiskerfinu.

Útboð sjúkrahótels, þar sem fyrirtæki sem rekið er í hagnaðarskyni var með eina tilboðið, staðfesti svo þetta. 

Forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra ásamt Læknafélagi Íslands og Skurðlæknafélagi Íslands undirrituðu viljayfirlýsingu í tengslum við gerð kjarasamninga lækna í vikunni.

Í sjöunda lið yfirlýsingarinnar segir að fram fari heildstæð skoðun á skipulagi, uppbyggingu og fjármögnun heilbrigðiskerfisins. Opna þurfi möguleika áfjölbreyttum rekstrarformum sem byggja á virkri þjónustu- og verkefnastýringu, skýrum gæðakröfum samhliða jafnræði í greiðslum óháð rekstrarformi. Málsliðurinn „opna þurfi möguleika á fjölbreyttum rekstrarformum“ vekur athygli en þetta orðalag gefur tilefni til túlkunar um að þarna sé áhugi fyrir því að auka enn frekar vægi einkarekstrar í heilbrigðiskerfinu. Um fjórðungur kerfisins er nú þegar í einkarekstri og fjölbreytt rekstrarform til staðar. 

Vantar rökstuðning fyrir auknu vægi einkarekstrar

„Mér finnst þessi yfirlýsing vera að segja mér að það sé ætlunin að auka hlut einkarekstrar í kerfinu án þess að það sé rökstutt með neinum hætti. Það finnst mér merkilegt því rannsóknir sýna að félagslega uppbyggt kerfi eins og það kerfi sem við við Íslendingar höfum að uppistöðu til, það er að segja opinbert kerfi, eru bestu kerfin þegar kemur að aðgengi sjúklinga, lýðheilsu og kostnaði. Þannig að mér finnst þessi yfirlýsing segja að stjórnvöld vilji aukinn einkarekstur án þess að það sé rökstutt sérstaklega,“ segir Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna. Hún segir að nýlegt dæmi um útboð sjúkrahótels sé svo staðfesting á þessu, að vægi einkarekstrar sé að aukast. 

„Það er fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu sem er að bjóða í rekstur sjúkrahótels, fyrirtækið Sinnum, þetta er ákveðin breyting því við höfum langa hefð fyrir því að alls kyns stofnanir sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni hafa verið að sinna afmörkuðum þáttum heilbrigðisþjónustu. Það er ákveðin breyting því hér eru ekki einstakir læknar, eða slíkar stofnanir, heldur er um að ræða fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu sem er rekið í hagnaðarskyni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×