Innlent

Gagnrýna ráðningu Gunnars Birgissonar

Linda Blöndal skrifar
Ráðning Gunnars I. Birgissonar sem bæjarstjóra Fjallabyggðar kom mörgum í opna skjöldu, segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður kjördæmisins og fyrrverandi bæjarfulltrúi í Ólafsfirði. Bjarkey gagnrýnir að nýr meirihluti í Fjallabyggð skuli velja umdeildan stjórnmálamann til verksins en margir aðrir hafi getað tekið að sér starfið.

Minnihlutinn í bæjarstjórn Fjallabyggðar heyrði fyrst af ráðningunni í gærkvöldi sem þingmaður í kjördæminu. Bjarkey sagði í fréttum Stöðvar 2 í kvöld að gagnrýni kæmi úr öllum áttum í Fjallabyggð.

Kemur flatt upp á bæjarbúa

„Þetta kom mér mjög á óvart sem og fleirum eins og sjá má á á miðlum að fleirum hefur komið þetta á óvart í Fjallabyggð“, sagði Bjarkey. „Ég hefði viljað sjá þetta tækifæri hjá þessum nýja meirihluta að ná svolítið ferska vinda. Það er nægur mannskapur til sem varð til þegar breytingar urðu í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Þetta kemur mjög flatt upp á íbúa og virðist hafa verið mikill flýtir að ganga frá þessu. Menn hafa augljóslega gengið hratt til verks. Maður sér fólk úr öllum flokkum gagnrýna þessa ráðningu  og finnst þetta mjög sérkennilegt. Gunnar er umdeildur vegna verka sinna og það er það sem ég held að bæjarbúar telji að hægt hefði verið hægt að gera betur“, sagði Bjarkey sem stödd var á Ólafsfirði í dag og bendir á að Gunnar hafi nánast samdægurs verið ráðinn í stað fráfarandi bæjarstjóra.

Fyrrum sjálfstæðismenn í F-lista

S-listi jafnaðarmanna og F-listi mynda meirihlutann í bæjarstjórn með fjóra fulltrúa á móti þremur frá Framsókn og Sjálfstæðisflokki. Meirihlutinn ákvað ráðningu en í F- listanum er fólk sem var áður í Sjálfstæðisflokknum fyrir norðan.



Urðum að bregðast fljótt við

Kristinn Kristjánsson situr í meirihlutanum fyrir F-lista. „Við stóðum náttúrlega frammi fyrir því að bæjarstjórinn sagði upp og vildi hætta strax og þá voru góð ráð dýr. Við þurftum að bregðast skjótt við og við ákváðum að finna mann sem hefur þekkingu og reynslu til að halda áfram með þau verkefni hér í stjórnsýslunni. Við þurftum þungavigtarmann til að halda áfram með verkefnin. Við erum bjartsýn og ánægð með að hafa ráðið Gunnar í þetta. Vissulega er hann umdeildur en eru ekki flestir sem taka stórar ákvarðanir umdeildir?“, spyr Kristinn sem ræddi við Stöð tvö í kvöld. Meirihlutinn er einróma um ráðninguna en bæjarstjórnarfundur verður haldinn á fimmtudag í næstu viku og þá kemur í ljóst hvernig málið verður afgreitt.

Nær aldarfjórðungur í sveitarstjórn

Gunnar var oddviti Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Kópavogs í 24 ár, um árabil formaður bæjarráðs og bæjarstjóri. Gunnar var þingmaður Sjálfstæðisflokksins, frá 1999 til 2006 í Reykjaneskjördæmi, seinna Suðvesturkjördæmi. Fjallabyggð er tvö þúsund manna sveitarfélag eftir sameiningu Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Gunnar sem gegnir ekki lengur trúnaðarstörfum fyrir Kópavogsbæ mun taka við strax næstu mánaðarmót og segir tilboðið hafa borið brátt að.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×