Innlent

Árás gerð á netkosningu um Austfirðing ársins

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Alls voru tvö þúsund atkvæði ógild að sögn Gunnars ritstjóra.
Alls voru tvö þúsund atkvæði ógild að sögn Gunnars ritstjóra. Mynd/Gunnar
Fjöldi atkvæða í kjöri á Austfirðingi ársins voru ógild eftir að ljós kom að ein og sama erlenda IP-talan væri á bakvið þúsundir atkvæða. Tölvunarfræðingur var fenginn til að fara yfir málið en það er Austurfrétt sem stendur fyrir valinu. Greint er frá málinu á vef Austurfréttar.

„Þetta hefur engin áhrif á valið. Við erum viss um það,“ segir Gunnar Gunnarsson, ritstjóri Austurfréttar, í samtali við Vísi um málið. Hann segir að ljóst sé að einn og sami aðilinn hafi staðið að baki árásinni en um tvö þúsund atkvæði komu inn með þessum hætti.

Málið kom upp eftir að lesandi hafði samband og benti á að mikill fjöldi atkvæða hefði komið inn á stuttum tíma. Hægt er að sjá stöðu atkvæðagreiðslunnar um leið og búið er að greiða atkvæði. „Það var lesandi sem kveikti á því að það væru að koma óeðlilega stórir atkvæðabunkar. Við skoðuðum þær ábendingar, fórum inn í gagnagrunninn hjá okkur og sáum að einn aðili hafði dælt inn 2000 þúsund atkvæðum,“ segir Gunnar.

Enginn einn aðili sem tilnefndur er í valinu græddi á árásinni umfram aðra. „Atkvæðin dreifðust á þá sem voru í valinu,“ segir hann. Ekki er talið að neinn hinna tilnefndu séu á bakvið árásina en hún kom erlendis frá. „Nei, það er á hreinu. Þetta er forrit sem kemur erlendis frá. Hún hefur áhrif á alla,“ segir Gunnar.

„Það er búið að herða kerfið núna og við teljum okkur ekki lenda í þessu aftur,“ segir Gunnar og bætir við: „Við erum sannfærð um að við séum með nokkuð góðar tölur núna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×