Innlent

Þrjátíu ár af vinnu á bak og burt

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Alfons með vélarnar.
Alfons með vélarnar. mynd/alfons finnsson
„Tjónið er ekki bara fjárhagslegt heldur einnig tilfinningalegt. Í tölvunni voru fleiri þúsund myndir. Ég hef starfað sem ljósmyndari í þrjátíu ár og nánast allt mitt safn í tölvunni og flakkaranum,“ segir Alfons Finnsson, ljósmyndari og fréttaritari á vefnum Skessuhorn.

Brotist var inn á heimili Alfonsar í Ólafsvík síðdegis á laugardag. Alfons var sjálfur á sjúkrahúsi í Reykjavík vegna rifbeinsbrots en kona hans og sonur voru úti að horfa á þrettándabrennuna. Frá Alfonsi var tekin taska, en í henni voru myndavélar og ýmis tæki, ásamt fartölvu af gerðinni LG. Fjárhagslegt tjón er því talsvert. „Ekki undir tveimur milljónum, það er alveg öruggt,“ segir Alfons.

Engar skemmdir voru unnar á heimili fjölskyldunnar og að sögn Alfonsar hefur lögregla fundið fá sem engin ummerki innbrots. Því komst upp um innbrotið fyrir tilviljun eftir að kona hans tók eftir því að myndavélataskan væri horfin. „Lögregla er með einn í haldi og mig grunar hver það er,“ segir hann. Lögregla vildi ekki svara fyrirspurnum Vísis um málið þegar eftir því var óskað.

vísir/alfons
Sem fyrr segir voru myndavélar hans í tösku, ásamt ýmsum tækjum. Vélarnar sem um ræðir eru Canon Mark III, Canon D7 og Canon D30 ásamt linsum; ; Canon 35-350mm sem er mjög sjaldgæf og 16- 35 mm. Fartölvan er hvít af gerðinni LG.

Alfons hvetur alla þá sem telja sig hafa upplýsingar um málið að hafa samband við lögregluna á Ólafsvík eða við sig í síma 893 4239.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×