Innlent

Telur Byggðastofnun geta leyst vanda Flateyrar og Þingeyrar

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir hugmyndir um að binda kvóta við einstaka sjávarbyggðir ekki nýjar að nálinni. Byggðakvótinn hafi ekki verið nýttur með skynsamlegum hætti á síðustu árum. Hann sagði hinsvegar eftir ríkisstjórnarfund í morgun að hann teldi að Byggðastofnun gæti leyst vanda Flateyrar og Þingeyrar. Málið myndi skýrast á næstu dögum og vikum.

Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður viðraði í gær hugmyndir um að binda kvóta við einstaka sjávarbyggðir. Hún segir atvinnuöryggi ekkert í fiskvinnslu og starfsfólkið sé flutt gripaflutningum milli staða. 

Nú er atvinnuútlit dökkt á Flateyri og starfsfólk Vísis á Þingeyri þarf að svara því fyrir mánaðarmót hvort það vill flytja búferlum til Grindavíkur til að halda starfi sínu en starfsstöðin verður lögð niður í lok mars. Bæjarstjóri Ísafjarðar telur að það sé vænlegra til árangurs að binda aflaheimildir við einstaka sjávarbyggðir en að úthluta byggðakvóta og formaður Verkalýðsfélags Vestfjarða sagðist einnig hrifinn af hugmyndinni.

Sigurður Ingi segir slíkar hugmyndir ekki nýjar af nálinni. Það sé engin slík heimild í núgildandi lögum en ríkið hafi haft ýmis önnur úrræði uppá að hlaupa.

„Slíkar hugmyndir hafa komið upp talsvert lengi,“ segir Sigurður Ingi og bendir meðal annars á samtök sjávarbyggða og samtök fiskvinnslustöðva. Hann segir að byggðakvótinn hafi ekki verið nýttur með skynsamlegum hætti til þessa, það séu allir sammála um það.

„Sú leið að færa Byggðastofnun kvóta sem hægt er að úthluta til lengri tíma, til uppbyggingar í samvinnu við aðra, er mjög áhugaverð leið og hefur sumstaðar gefist mjög vel,“ segir hann. Hann segir stöðuna á Þingeyri og Flateyri valda áhyggjum en það sé unnið að lausn málsins. Byggðastofnun hafi þegar skýrt frá því að áhugasamir aðilar hafi sótt um samstarf við Byggðastofnun um þennan kvóta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×