Innlent

Segir forganginn þurfa að vera á hreinu

Viktoría Hermannsóttir skrifar
Árni Bjarnason, formaður FFSÍ, segir þyrlu LHG vera eina sjúkrabílinn fyrir sjómenn.
Árni Bjarnason, formaður FFSÍ, segir þyrlu LHG vera eina sjúkrabílinn fyrir sjómenn.
„Ég held það ætti að vera áhersluatriði númer eitt að vera tilbúnir til að sækja veika eða slasaða sjómenn eða fólk uppi á landi eða hvar sem er ef það slasast,“ segir Árni Bjarnason, formaður Farmanna- og skimannasambands Íslands.

Í Fréttablaðinu á föstudag var fjallað um það að skipverji á frystitogaranum Örfirisey RE hefði fengið hjartaáfall um borð. Það tók þyrlu Landhelgisgæslunnar um þrjá tíma í stað eins að koma á staðinn þar sem þyrlan var stödd í verkefni fyrir Almannavarnir við eldstöðvarnar í Bárðarbungu. Skipverjar vöktu manninn til lífs með því að veita honum hjartahnoð og nota hjartastuðtæki sem var um borð.

Trausti Egilsson, skipstjóri Örfiriseyjar, sagði það óásættanlegt að þyrlan væri í slíkum verkefnum. Árni tekur undir þau sjónarmið.

„Þetta er eini sjúkrabíllinn fyrir sjómenn. Það er til nóg af öðrum flugförum til að sinna svona verkefnum.“ Árni segir sjómenn lengi hafa barist fyrir því að þessi mál séu í lagi.

„Þetta var komið í gott horf fyrir hrun en síðan fór þetta niður eftir það. Það þarf að hafa forganginn á hreinu. Hver mínúta skiptir máli þegar svona er. Vonandi verður þetta til þess að þeir fari ofan í saumana á því hvernig á að standa að þessu,“ segir Árni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×