Innlent

Túlkasjóðurinn er uppurinn öðru sinni

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Páll valur Björnsson
Páll valur Björnsson
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, efar það að túlkasjóður hins opinbera hafi verið stofnaður til að fjármagna alla túlkaþjónustu í daglegu lífi heldur hafi honum verið ætlað að styðja við þjónustuna.

Illugi Gunnarsson
Þetta kom fram í svari hans við fyrirspurn Páls Vals Björnssonar, þingmanns Bjartrar framtíðar, í umræðum á Alþingi í gær. Páll Valur benti á í fyrirspurn sinni að sjóður fyrir túlkaþjónustu í daglegu lífi væri uppurinn öðru sinni og gagnrýndi það harðlega með vísan í samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. „Það er ljóst í mínum huga að með því að leggja ekki aukið fé í túlkasjóðinn er ráðherrann og við sem förum með löggjafarvaldið ekki einungis að sýna því fólki sem á þessu þarf að halda mikla vanvirðingu heldur erum við einnig að brjóta á mannréttindum þess,“ sagði Páll.

Illugi sagði í svari sínu sjálfsagt að málið væri rætt en benti á að túlkaþjónusta sé víða veitt í hinu opinbera kerfi, til að mynda í framhaldsskólum og í heilbrigðiskerfinu en viðurkenndi að þjónustan mætti vera betri. „Við vitum að í ýmsum slíkum tilvikum vildum við svo sannarlega geta gert betur en við erum alltaf takmörkuð af þeim fjármunum sem við höfum til skiptanna,“ sagði Illugi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×