Innlent

Krafa stúdenta að samið sé strax

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Ísak segir óvissuna í kringum verkfallið of mikla.
Ísak segir óvissuna í kringum verkfallið of mikla. Vísir/Stefán
Fulltrúar Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ) áttu fund með Illuga Gunnarssyni menntamálaráðherra í gær. Ástæða fundarins er staða sú sem upp er komin í kjaradeilu háskólaprófessora og ríkisins.

„Það er krafa nemenda að það verði fundað oftar svo samkomulag náist sem fyrst,“ segir Ísak Rúnarsson, formaður SHÍ. Fulltrúar nemenda hafi afhent ráðherra yfirlýsingu þar sem fram komi áhyggjur þeirra af stöðu mála. Verði af verkfalli hafi það ekki einvörðungu áhrif á nemendur heldur gæti orðspor skólans beðið hnekki.

„Eins og er er staðan algerlega óviðunandi. Til að mynda eru námslánin í óvissu og fjarnemar erlendis hafa ekki hugmynd um hvenær, eða hvort, þeir eigi að koma til landsins til að þreyta prófin,“ bætir Ísak við.

Að öllu óbreyttu munu háskólaprófessorar fara í verkfall dagana 1.-15. desember næstkomandi. Næsti fundur deiluaðila er áætlaður á morgun.-




Fleiri fréttir

Sjá meira


×