Innlent

Mýflug leyst undan 44 milljóna kvöð um bankaábyrgð vegna sjúkraflugs

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Umfjöllun um flugslysið á Akureyri 5. ágúst og kringumstæður þess hófst í Fréttablaðinu 6. janúar síðastliðinn.
Umfjöllun um flugslysið á Akureyri 5. ágúst og kringumstæður þess hófst í Fréttablaðinu 6. janúar síðastliðinn.
Mýflug hefur fengið 44 milljóna króna afslátt af ábyrgðaryfirlýsingu sem félaginu er skylt að leggja fram vegna samnings síns um sjúkraflug fyrir ríkið.

„Mýflug hefur sinnt skyldum sínum án vanefnda frá upphafi viðskipta,“ segir í svari Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) um ástæður þess að upphæð ábyrgðaryfirlýsingarinnar var lækkuð úr 88,5 milljónum króna í 44 milljónir. Bankaábyrgðin er frá Sparisjóði Suður-Þingeyinga.

Engin skjöl um 44 milljóna króna ákvörðun

Þá segja Sjúkratryggingar að einnig sé litið til þess að Mýflug hafi til ráðstöfunar tvær varaflugvélar í stað einnar varavélar sem kröfur í útboði kváðu á um.

„Sjúkratryggingar Íslands hafa því fallist á þá röksemd að líkur á vanefndum sem ábyrgðinni er ætlað að dekka, svo sem vegna rekstrarstöðvunar eða sambærilegra atriða, séu minni en upphaflega var gert ráð fyrir,“ segir í svari stofnunarinnar.

Samkvæmt upplýsingum frá SÍ er ekkert skjal til um þessa ákvörðun sem virðist hafa verið endanlega staðfest fyrir tveimur vikum. „Fimmtudaginn 9. janúar síðastliðinn var lokið við að undirrita samkomulag um breytingar á samningnum milli SÍ og Mýflugs sem fyrrgreind ákvörðun byggir á,“ hljóðar svar Sjúkratrygginga þegar spurt er hvort ekkert sé skráð hjá stofnuninni um þá ákvörðun að lækka ábyrgðaryfirlýsingu Mýflugs.

Fjármálaráðuneytið sagði sjúkrabúnað tapaðan

Eins og áður hefur komið fram í Fréttablaðinu var samþykkt með fjáraukalögum á Alþingi fyrir jól að greiða nýjan 43 milljóna króna sjúkrabúnað í stað þess sem ríkið átti og eyðilagðist er sjúkraflugvél Mýflugs fórst á Akureyri í ágúst. Upphæðin var færð á liðinn „tapaðar kröfur og tjónabætur“ hjá ríkinu. „Í því tilviki sem um ræðir var ljóst að búnaðurinn var tapaður,“ svarar fjármálaráðuneytið um ástæður þess.

Með nýrri breytingu á sjúkraflugssamningi Mýflugs fær félagið að framvísa helmingi lægri bankaábyrgð en áður.
Í samningi við Mýflug er þó tekið fram að félagið beri ábyrgð á tjóni sem SÍ eða aðrir verði fyrir við framkvæmd sjúkraflugsins. Ekki var gerð tilraun til að innheimta þessa kröfu gagnvart Mýflugi og ákvæðisins var hvorki getið í minnisblaði heilbrigðisráðherra til fjármálaráðherra né í greinargerð sem lögð var fyrir Alþingi. Heilbrigðisráðuneytið segir ákvæðið ekki hafa verið nefnt í minnisblaðinu því það sé hefðbundið ákvæði slíkra samninga sem staðfestir séu af fjármála- og efnahagsráðuneytinu sem sé því kunnugt um þessa grein samningsins.

Er heilbrigðisráðuneytið var spurt um málið fyrr í þessum mánuði sagði það rétt að samkvæmt samningi hafi Mýflugi borið ábyrgð á meðferð sjúkrabúnaðarins.

„Í þessu máli er ekki augljóst að ríkið eigi kröfu á hendur Mýflugi vegna búnaðarins. Þessi mál verða skoðuð í heild en ekki er tímabært að fullyrða neitt að svo stöddu,“ útskýrði ráðuneytið 7. janúar. Eftir það hefur ráðuneytið sagst ekki mundu tjá sig frekar um hugsanlega kröfu á hendur Mýflugi á meðan málið sé til skoðunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×