Enski boltinn

Pellegrini: Eigum ekki að tapa fyrir Wigan

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Manuel Pellegrini, þjálfari Manchester City, var þungur á brún eftir tap hans manna fyrir bikarmeisturum Wigan í dag.

„Þetta eru vonbrigði því eigum ekki tapa fyrir Wigan á heimavelli í bikarkeppninni,“ sagði Pellegrini eftir leikinn. „Við fengum þrjú eða fjögur tækifæri til að jafna leikinn.“

„Ég vill ekki aðskilja varnar- og sóknarleikinn. Við hefðum getað gert betur í mörkunum sem Wigan skoraði, en við gerðum ekki nóg í sókninni fyrr en þeir komust í 2-0,“ sagði Pellegrini ennfremur.

Manchester City á erfitt verkefni fyrir höndum á miðvikudaginn þegar liðið mætir Spánarmeisturum Barcelona í Meistaradeildinni. City þarf að vinna upp tveggja marka forskot Barcelona frá fyrri leiknum, en það verður hægara sagt en gert á heimavelli Börsunga.

Pellegrini sagði að það væri mikilvægt fyrir hans menn að snúa bökum saman og koma sterkir til baka. „Við erum komnir á lokasprett tímabilsins, en það er mikilvægt að bregðast rétt við. Við verðum að fara til Barcelona og reyna að komast áfram í Meistaradeildinni, þótt það verði erfitt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×