Innlent

Lögmaður telur stytt bótaréttindi stangast á við lög

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Um áramót missa 500 manns bótaréttindi sín þegar bótatíminn styttist úr þremur árum í þrjátíu mánuði.

Gísli Tryggvason lögmaður telur ný lög um atvinnuleysistryggingar sem taka gildi um áramótin stangast á við stjórnarskrá.

„Já, ég tel að ekki sé hægt að afnema áunnin rétt sem að hefur verið tryggður í lögum alllengi með svona skömmum fyrirvara og þá vísa ég bæði til eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar og ekki síður til 76.greinar stjórnarskrárinnar. Sem kveður á um að öllum skuli tryggður réttur í lögum vegna, til dæmis atvinnuleysis,“ segir Gísli í samtali við Stöð 2.

Ástæðuna segir hann vera að þarna sé um harkalega íþyngjandi ákvörðun að ræða.

„Ástæðan er sú að þarna er um harkalega íþyngjandi ákvörðun að ræða. Ef að þetta væri ívilnandi ákvörðun, þá væri þetta allt í lagi. Þá gæti enginn farið í mál út af því. En ég tel þetta mjög hæpið út frá þessum stjórnarskrárákvæðum.“

Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra segir áformin hafa legið fyrir í töluvert langan tíma.

„Frumvarpið var kynnt núna í haust. Þannig að þessi áform hafa legið fyrir í töluvert langan tíma. Alþingi samþykkti þetta samhliða tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins, þar var náttúrulega farið í gegnum áhrifin og það var einnig farið í gegnum hvað við værum að gera og niðurstaða Alþingis var að samþykkja þetta og telur að sjálfsögðu að það standist lög.“

Forsvarsmenn sveitarfélaganna gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að ráðast í lagabreytingar án samráðs. Þær feli í sér þungar byrðar. Eygló bindur hins vegar vonir við samstarf við sveitarfélögin.

„Við sjáum það að það fækkar bæði verulega á atvinnuleysisskrá. Við höfum verið að ná góðum árangri í samstarfið við þau sveitarfélög sem eru að hjálpa fólki sem er á fjárhagsaðstoð að fá vinnu. Ég er algjörlega sannfærð um það, að þær tölur sem við erum að sjá núna, eins og Hagstofan er að birta við þurfum að fara aftur til október 2008 til að sjá sambærilegar atvinnuleysistölur að við munum geta h jálpað fólki að fá vinnu.Mér hefur brugðið eilítið við þessa umræðu, hvað fólk hefur talað svolítið kjark úr fólki að það hafi möguleika á að fá vinnu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×