Enski boltinn

Robben vill ekki til United

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Robben að fagna meistaratitlinum í Þýskalandi
Robben að fagna meistaratitlinum í Þýskalandi vísir/getty
Hollendingurinn Arjen Robben segir ekki koma til greina að yfirgefa Bayern Munchen til að ganga til liðs við Manchester United.

Robben var orðaður við Manchester United beint í kjölfarið af því að Louis van Gaal var ráðinn þjálfari félagsins í dögunum.

„Manchester United? Það er ekki möguleiki. Ég verð áfram hjá Bayern Munchen. Staðfest,“ sagði Robben við De Telegraaf.

„Ég get ekki ímyndað mér að Bayern myndi selja mig. Ég er nýbúinn að framlengja samninginn og er ánægður hjá félaginu sem er ánægt með mig. Það væri önnur saga ef ég væri óánægður.

„Þá hefði ég verið opinn fyrir félagsskiptunum vegna þess að ég átti frábæran tíma  undir stjórn Van Gaal hjá Bayern. Hann skipti miklu máli fyrir minn feril. Hvað sem því líður þá er ég mjög ánægður hjá félaginu.

„Van Gaal og (Pep) Guardiola er bestu þjálfararnir sem ég hef unnið með. Mér líður vel og fer hvergi. Það eru engar líkur á að ég gangi til liðs við Manchester United,“ sagði Robben og bætti við að United hefði gert mjög vel í að ráða Van Gaal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×