Manchester United rak David Moyes úr starfi knattspyrnustjóra í dag, sléttu ári eftir að liðið tryggði sér sinn 20. Englandsmeistaratitil frá upphafi.
United tryggði sér enska meistaratitilinn á þessum degi fyrir ári síðan með 3-0 sigri á Aston Villa með þrennu Hollendingsins Robin van Persie.
Sir Alex Ferguson var þá knattspyrnustjóri Manchester United en lét af störfum í lok tímabilsins eftir 27 ár í starfi.
Moyes var svo ráðinn sem eftirmaður Ferguson en var svo rekinn í morgun eftir aðeins tíu mánuði í starfi. Liðið er í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar og tapaði 2-0 fyrir hans gamla liði, Everton, um helgina.
Þar með varð ljóst að liðið myndi ekki spila í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð og gerði það útslagið fyrir forráðamenn Manchester United.
