Innlent

Íslenskuverðlaun unga fólksins afhent í dag

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Frú Vigdís afhendir Margréti Maríu Hallgrímsdóttur nemanda í Austurbæjarskóla íslenskuverðlaunin en hátt í eitt hundruð börn og ungmenni fengu í dag íslenskuverðlaun unga fólksins í bókmenntaborginni Reykjavík.
Frú Vigdís afhendir Margréti Maríu Hallgrímsdóttur nemanda í Austurbæjarskóla íslenskuverðlaunin en hátt í eitt hundruð börn og ungmenni fengu í dag íslenskuverðlaun unga fólksins í bókmenntaborginni Reykjavík.
Íslenskuverðlaun unga fólksins í bókmenntaborginni Reykjavík voru afhent við hátíðlega athöfn í Norðurljósasal Hörpu í dag. 58 börn og unglingar og þrír nemendahópar fengu viðurkenningu. Meðal verðlaunahafa voru lestrarhestar og tvítyngdir nemendur sem sýnt hafa framfarir í íslenskunámi, ung ljóðskáld, sögusnillingar, bókaormar og góðir upplesarar. 

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri setti athöfnina og frú Vigdís Finnbogadóttir flutti ávarp og afhenti verðlaunin.

Íslenskuverðlaunin voru nú veitt í áttunda sinn, í tilefni Dags íslenskrar tungu, sem haldinn er hátíðlegur 16. nóvember, á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. Verðlaununum er ætlað að auka áhuga grunnskólanema í Reykjavík á íslenskri tungu og hvetja þá til framfara í tjáningu og töluðu og rituðu máli. Verðlaunagripinn, Þröstinn góða, sem er hvort tveggja í senn bókahilla og veggskaut, hannaði Ingibjörg Hanna Bjarnadóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×