Innlent

Kölluð gleðikona því hún er frá Póllandi

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Innflytjendur í Reykjavík upplifa töluverða fordóma í sinn garð og telja nauðsynlegt að efla fræðslu í þeim efnum í skólum og á vinnustöðum borgarinnar. Þetta er meðal þess sem kom fram á Fjölmenningarþingi sem haldið var í ráðhúsi Reykjavíkur í dag. Tvö hundruð manns af hinum ýmsu þjóðernum tóku þátt í ár en það er metþátttaka. 

Um fjórtán þúsund innflytjendur búa í Reykjavík og er markmiðið með þinginu er að skapa umræður um málefni þeirra. Á meðal þátttakenda voru Anna frá Póllandi og Helder frá Angóla, en þau hafa bæði verið búsett hér á landi síðastliðin þrettán ár. Þau segja að margt megi betur fara í málefnum innflytjenda á Íslandi og hafa bæði fundið fyrir fordómum hér á landi. 

„Ég er oft kölluð ljótum nöfnum vegna þess að ég er frá Póllandi, og fólk hefur sagt mér að ég ætti frekar að skúra gólf en vera í afgreiðslustarfi. Sumir ganga meira að segja út frá því að ég sé gleðikona eða strippari, bara vegna þess að ég er pólsk,“ segir Anna. 

Þau eru þó sammála um að hægt sé að laga heilmikið með fordómafræðslu og vilja sjá hana eflast á vinnustöðum og í skólum. 

„Fólk er mikið að alhæfa og það þarf meiri fræðslu,“ segir Helder. „Íslendingar verða að hætta að hugsa í staðalímyndum,“ bætir Anna við.

Þau binda miklar vonir við vinnuna sem unnin var í dag og vilja að henni sé fylgt eftir. 

„Það er mikilvægast. Ef þessar ályktanir og hugmyndir eru ekki teknar alvarlega ef þetta gangslaust,“ segir Anna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×