Innlent

Nokkuð um fjarvistir framhaldsskólanema í dag

Hrund Þórsdóttir skrifar
Skólameistarar funduðu með starfsmönnum menntamálaráðuneytisins í morgun um hvernig ætti að ljúka önninni.

„Við eigum að bæta við að lágmarki fimm kennsludögum en hvernig það verður gert, verður útfært í hverjum skóla fyrir sig, sýnist mér,“ segir Ársæll Guðmundsson, formaður Skólameistarafélags Íslands.

Fyrirkomulag kennslu það sem eftir lifir annar á að liggja fyrir í síðasta lagi á miðvikudaginn.

Hvernig var mætt í morgun, var mikið um fjarvistir?

„Það var eitthvað um fjarvistir og sumir komu seint, en varðandi brottfallið, hverjir skila sér aftur, það kemur ekki í ljós fyrr en á næstu dögum þegar við sjáum heildarmyndina,“ segir Ársæll.

Margir nemendur hafa áhyggjur af framhaldinu.

„Mér sýnist stemmningin vera ágæt en það er mikið stress og óvissa um hvernig framhaldið verður,“ segir Hjörleifur Steinn Þórisson, formaður nemendafélags Borgarholtsskóla. „Ég er sjálfur að fara að útskriftast og það er óþægilegt að vita ekki hvort ég næ því,“ segir hann. Hjörleifur segir jafnframt að nemendur í verklegu námi hafi komið verst út úr verkfallinu þar sem nemendur í bóknámi hafi getað fylgt námsskrá en hinir hafi ekki getað nálgast nauðsynleg tæki og tól.

Í Menntaskólanum við Hamrahlíð seinkar útskrift aðeins um einn dag. Kennt verður þriðjudaginn eftir páska og í fjóra daga þegar prófin áttu að byrja.

„Ég held að þetta sé alveg nóg og tel að kennarar muni sýna því skilning að við höfum misst úr þessar vikur,“ segir Jara Hilmarsdóttir, starfandi formaður nemendafélags Menntaskólans við Hamrahlíð. „Það er mikill léttir að sjá hvað kennararnir eru skilningsríkir og hvað allir eru glaðir yfir því að koma til baka.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×