Innlent

Launin hækka um 11,8% á árinu

Snærós Sindradóttir skrifar
Reynir Þór Eggertsson, framhaldsskólakennari
Reynir Þór Eggertsson, framhaldsskólakennari VÍSIR/GVA
Framhaldsskólakennarar fá samtals 11,8 prósenta launahækkun í ár samkvæmt nýjum kjarasamningum.

Almenn launahækkun er 2,8 prósent og er í samræmi við launahækkanir annarra stétta. Við það bætast 9 prósent vegna breytinga sem felast í nýjum kjarasamningi. Ekki er krafa um aukna viðveru kennara samkvæmt samningnum.

Reynir Þór Eggertsson, stjórnarmaður í Félagi framhaldsskólakennara, segir að nú þegar sé hafin vinna við að kynna kennurum hinn nýja samning.

„Það er búið að senda samninginn til allra trúnaðarmanna og formanna kennarafélaga. Þeir hafa svo væntanlega áframsent samninginn til sinna manna. Svo hefur kynning og umræða farið fram í lokuðum hópum, til dæmis á Facebook, þar sem við höfum svarað nokkrum fyrirspurnum.“

Reynir segir að hljóðið í strokk kennara sé um margt gott nú þegar þriggja vikna verkfalli er lokið „Um leið og fólk fær tækifæri til að skoða samninginn virðist hljóðið vera mjög gott. Fyrstu upplýsingar voru villandi en nú er þetta tekið að skýrast.“

Gylfi arnbjörnsson
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að hækkanirnar séu líklega í samræmi við aðrar hækkanir í kjarasamningum.

 

„Það er ekki sambærilegt við almenna hækkun að taka að sér aukna vinnu. Skilji ég þessa samninga rétt eru almennar hækkanir í samræmi við kjarasamninga.“

Hann segir að samningarnir líti vel út við fyrstu sýn, „Ég geri ráð fyrir að það þurfi engar sérstakar fjárveitingar til skólanna til að mæta þessu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×