Enski boltinn

Brendan Rodgers vill taka vel til í leikmannahópi Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool.
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool. Vísir/Getty
Daily Telegraph hefur heimildir fyrir að Liverpool stefni á það að safna 30 milljónum punda með sölum á leikmönnum í sumar en meðal leikmanna sem eru hugsanlega á förum eru Daniel Agger, Lucas og Fabio Borini.

Liverpool náði sínum besta árangri í langan tíma í ensku úrvalsdeildinni á nýloknu tímabili og var nálægt því að enda 24 ára bið sína eftir enska meistaratitlinum.

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri félagsins, ætlar engu að síður að taka vel til í leikmannahópi liðsins fyrir næsta tímabil sem verður það fyrsta í Meistaradeildinni í nokkurn tíma.

Rodgers hefur sett saman sölulista með fjórtán leikmönnum og ætlar sér einnig að styrkja hópinn með fimm til sex sterkum leikmönnum. Það er því von á miklum breytingum á Anfield í sumar.

Liverpool keypti þá Iago Aspas og Luis Alberto síðasta sumar en mun reyna að losna við þá ári seinna enda náði hvorugur þeirra sér á strik í búningi Liverpool.

Liverpool hefur ekki áhuga á því að framlengja lánsamninga Victor Moses og Aly Cissokho og þá er líklegt að félagið nái að selja bæði Fabio Borini (lánaður til Sunderland) og Oussama Assaidi (lánaður til Stoke) sem stóðu sig vel hjá "nýjum" félögum á tímabilinu.

Daniel Agger er eftirsóttur og vitað er af áhuga Barcelona. Liverpool gæti hugsanlega fengið tólf milljónir punda fyrir hann. Lucas Leiva gæti líka verið seldur fái félagið gott tilboð í hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×