Innlent

Rúmlega 500 tonn af flugeldum flutt inn

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Flugeldasala Slysavarnafélagsins Landsbjargar hefst á morgun. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu voru fimm hundruð og tvö tonn af flugeldum flutt inn þetta árið. Það má því segja að flugeldasala sé að taka við sér en tonnin voru fjögur hundruð á síðasta ári. Starfsmenn Landsbjargar voru í óðaönn að raða bombum í hillurnar í dag.

Stór hluti flugelda sem landsmenn skjóta upp um áramótin verða keyptir hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu. Salan hefst á morgun en í dag voru starfsmenn félagsins í óðaönn að raða í hillurnar á Flugvallarvegi.

Framkvæmdastjóri Landsbjargar segir undirbúning ganga vel og úrvalið gott. Mikið sé í húfi enda stærsta fjáröflun félagsins.

„Hún hefur gríðarlega mikið að segja,“ segir Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar. „Og stendur aðeins yfir í fjóra daga, þannig að það er mikið undir. Þetta hefur allt að segja fyrir okkur.“

Fleiri en Landsbjörg standa í flugeldasölu og þarf ekki annað en að fletta blöðunum í dag til að sjá það.

„Munurinn á okkur og mörgum öðrum er að þetta er fjáröflun björgunarsveitanna, við seljum flugelda til þess að geta haldið úti starfi allt árið.“

Flugeldarnir eru keyptir frá Kína en þar hefur verð farið hækkandi vegna verðbólgu. Flutningskostnaður hefur hækkað en Jón segir fríverslunarsamning við Kína gera það að verkum að verð haldist óbreytt milli ára.

Ólöf Pálsdóttir hjá Landsbjörg hafði í nógu að snúast þegar fréttastofu bar að garði. Hún segir skotkökurnar með íslensku köppunum vera vinsælastar. „Þá sérstaklega Gunnlaugur Ormstunga, hann er mjög vinsæll.“

„Þetta er mjög skemmtilegt, skemmtilegt fólk og langir vinnudagar. Og maður finnur mikinn stuðning frá fólki þegar það kemur hingað að kaup flugelda,“ segir Ólöf að lokum
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.