Sport

Lögreglan vill afsökunarbeiðni frá Browns

Hawkins í bolnum umdeilda.
Hawkins í bolnum umdeilda. vísir/getty

Það er í tísku hjá bandarískum íþróttamönnum þessa dagana að mótmæla ofbeldi lögreglumanna í landinu. Löggunni í Cleveland var þó ekki skemmt í gær.

Þá mætti Andrew Hawkins, leikmaður Cleveland Browns í NFL-deildinni, í bol þar sem á stóð: „Réttlæti fyrir Tamir Rice  John Crawford."

Rice er 12 ára drengur sem var skotinn af lögreglunni í Cleveland í síðasta mánuði. Þá hélt lögreglan að loftbyssa sem hann væri með væri alvöru byssa. Crawford var skotinn af lögreglunni í ágúst er hann var með loftriffil í Wal-Mart.

Hawkins hljóp út á völlinn fyrir leik í þessum bol og lögreglan í borginni brást illa við.

„Það er aumkunarvert að fylgjast með því er íþróttamenn þykjast vita eitthvað um lögin. Þeir ættu að halda sig við það sem þeir gera best. Lögreglan í Cleveland sér um öryggisgæslu á heimavelli Browns og félagið skuldar okkur afsökunarbeiðni," segir í yfirlýsingu frá lögreglunni.

Íþróttamenn um öll Bandaríkin hafa síðustu viku verið í bolum þar sem á stendur: „I can't breathe" en þar er verið að mótmæla því að lögreglumaður í New York hafi ekki verið kærður fyrir sinn þátt í dauða Eric Garner.

NFL


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.