Innlent

Eftirlíkingunum verður fargað

Bjarki Ármannsson skrifar
Eftirlíkingarnar umtöluðu uppgötvuðust í fríi svæðisstjóra Cassina.
Eftirlíkingarnar umtöluðu uppgötvuðust í fríi svæðisstjóra Cassina. Vísir
Borgarlögmaður hefur staðfest að eftirlíkingum Le Corbusier-húsgagna í Ráðhúsi Reykjavíkur verður fargað.

Greint var frá því í Fréttablaði dagsins í dag að sæti fyrir um 150 manns í Ráðhúsinu séu eftirlíkingar af stólum og sófum eftir franska hönnuðinn Le Corbusier. Ítalski húsgagnaframleiðandinn Cassina fór fram á það við borgina að þeim yrði fargað og frumhönnun keypt í þeirra stað.

Uppgötvuðust fyrir tilviljun

Skúli Rósantsson, söluaðilaðili Cassina á Íslandi, segir að ólöglegu eftirlíkingarnar hafi uppgötvast fyrir tilviljun í apríl. Reykjavíkurborg hafi haft tíma síðan þá til þess að fjarlægja eftirlíkingarnar en ekkert hafi verið aðhafst fyrr en málið rataði í fjölmiðla.

„Svæðisstjóri Cassina var bara hérna í sumar og fór að skoða Ráðhús Reykjavíkur,“ segir Skúli. „Þá gengur hann bara inn á „kóperingar“ í hverju horni. Í kjölfarið ræddi hann við einhvern í Ráðhúsinu og það hófust einhver póstskrif í kjölfarið á því.“

Skúli segir að Cassina hafi boðist borginni að skipta eftirlíkingunum út fyrir upprunaleg húsgögn „nánast á kostnaðarverði“ en að borgin hafi ekki orðið við því. Hann segir þó að ef eftirlíkingunum verði fargað, sé málinu í raun lokið. 

Frétt DV um húsgögnin umtöluðu.
Hurfu raðnúmerin í sýrubaði?

Alex Colding, svæðisstjórinn sem uppgötvaði eftirlíkingarnar í heimsókn sinni til Íslands, sagði í samtali við fréttastofu í gær að raðnúmer vanti í burðargrind húsgagnanna. Þannig sjáist að ekki sé um frumhönnun að ræða.

Fréttavefurinn Nútíminn bendir á það í frétt sinni í dag að grindur sumra húsgagnanna hafi hlotið sýrubað þegar þau voru flutt hingað til lands árið 1992. Frá því var greint í DV á sínum tíma. Þetta var gert vegna þess að hluti húsgagnanna kom hingað til lands frá Ítalíu krómhúðaður en ekki grár.

„Mun þar hafa verið um að kenna handvömm móður hins ítalska framleiðanda,“ segir í frétt DV frá 10. apríl 1992 um málið. Nútíminn veltir því fyrir sér hvort þar sé komin útskýringin á því að raðnúmerin vanti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×