Lífið

100 milljóna húsið sem Gunnar Nelson vill kaupa

Húsið er 358 fermetrar og er metið á 95 milljónir.
Húsið er 358 fermetrar og er metið á 95 milljónir. Vísir/GVA
Bardagakappinn Gunnar Nelson og hans heittelskaða, listakonan Auður Ómarsdóttir, hafa gert tilboð í 358 fermetra hús sem stendur við Kleifarveg 6 ofan við Laugardalinn í Reykjavík. Húsið er metið á tæpar 95 milljónir króna og ætti að fara vel um skötuhjúin á þessum fallega stað í höfuðborginni.

Ragnar Arnalds, sem gegndi embætti menntamála- og samgönguráðherra á árunum 1978 til 1979 og embætti fjármálaráðherra á árunum 1980 til 1983, býr í dag í húsinu. Ef allt gengur að óskum og Gunnar og Auður festa kaup á eigninni ætlar Ragnar að flytja í Kópavog ásamt eiginkonu sinni.

„Maður er að minnka við sig eins og gengur,“ segir Ragnar í samtali við Vísi. Honum lýst vel á nýja íbúa hússins gangi allt eftir sem vonir standi til.

Kleifarvegur er vinsæl gata og ef eignin á númer 6 verður Gunnars og Auðar munu nágrannar þeirra verða ekki ómerkari menn en Björn Zoëga, fyrrverandi forstjóri Landspítalans og nú forstjóri Nextcode, og Magnús Jóhannesson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri og framkvæmdastjóri Norðurskautsráðsins.

Einbýlishúsið að Kleifarvegi 6 var byggt árið 1967 og stutt er í alla þjónustu í Laugardalnum, ekki síst Fjölskyldu- og húsdýragarðinn sem frumburður Gunnars og Auðar, Stígur Týr, gæti skemmt sér dægrin löng í en hann kom í heiminn síðasta sumar. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×