Innlent

Kvaðst hafa drukkið kókakóla og neytt amfetamíns óvart

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Maðurinn sagðist aðeins hafa drukkið kók í partýinu og ekki hafa fundið fyrir neinum áhrifum örvandi efna þegar hann settist undir stýri.
Maðurinn sagðist aðeins hafa drukkið kók í partýinu og ekki hafa fundið fyrir neinum áhrifum örvandi efna þegar hann settist undir stýri. Vísir/Getty
Héraðsdómur Reykjaness hefur svipt mann ökuréttindum í eitt ár auk þess sem hann skal greiða 140.000 krónur í sekt fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna.

Maðurinn neitaði sök fyrir dómi og kvaðst aðeins hafa drukkið gos, kókakóla, í partýi sem hann hafði verið í áður en hann settist undir stýri. Hann kvaðst því ekki hafa fundið fyrir neinum áhrifum örvandi efna. Í ákæru kemur hins vegar fram að amfetamín hafi fundist í blóði hans.

Ákærði gaf þá skýringu fyrir dómi að amfetamínið hafi kannski komist í blóðið hans þar sem hann gæti hafa víxlað á glösum í partýinu sem hann hafði verið í. Aðrir hafi verið að neyta fíkniefna þar.

Vitni sem komu fyrir dóminn höfðu verið í umræddu partýi. Annað vitnið bar að hafa neytt amfetamíns og drukkið Breezer eða eplasafa. Aðrir í partýinu hafi gert það líka. Hitt vitnið kvaðst hafa drukkið vodka í kók.

Í ljósi þessa var framburður ákærða fyrir dómi talinn ótrúverðugur. Ef hann hefði víxlað á glösum hefði hann átt að taka eftir því þar sem bjór, Breezer eða eplasafi hafi allt annan lit en kókakóla. Þá hafi ýmislegt annað í framburði mannsins verið ótrúverðugt. Magn amfetamíns í blóði var til að mynda það mikið að útilokað er að hann hafi ekki fundið fyrir áhrifum efnisins.

Dómurinn telur því sannað að hann hafi ekki neytt amfetamíns óvart heldur þvert á móti. Því er hann dæmdur til sektargreiðslu sem hann skal innan fjögurra vikna frá dómsuppkvaðningu en annars sæta fangelsi í 10 daga. Þá er hann sviptur ökuréttindum í eitt ár.

Dóm Héraðsdóms má sjá í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×