Innlent

Hafa áhyggjur af áhrifum gosmengunar

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Íbúar á Austurlandi hafa áhyggjur af áhrifum þeirrar miklu gosmengunar sem verið hefur á svæðinu á meðan á gosinu í Holuhrauni hefur staðið. Þetta segir forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar.

Sala öndunarfæralyfja hefur aukist um þriðjung á Austulandi frá því að gosið í Holuhrauni hófst fyrir rúmum sex vikum. Þangað til í síðustu viku voru vindáttir að mestu þannig að gosmengunin fór yfir Norður- og Austurland.

Íbúar hafa þvi sumir áhyggjur af áhrifum gosmengunarinnar til lengri tíma. Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, segir áhyggjuefni hvað mengunin hafi verið mikil og þess vegna hafi verið lagt kapp á að fjölga mengunarmælum á svæðinu.

Þeir séu nú víða í þéttbýli á Austurlandi. Með þvi geti íbúar betur fylgst með. Þeir hafi margir fundið vel fyrir menguninni enda fari hún oft illa í þá sem eru með öndunarfærasjúkdóma eins og astma.

Þannig segir Jón þá finna fyrir óþægindum eins og sviða og höfuðverk.

Jón telur mikilvægt að rannsaka langtímaáhrif gosmengunarinnar. Íbúar séu duglegir að fylgjast með spám um það hvert gosmengunin fari til að bregðast rétt við.

Börnum hafi verið haldið inni þegar mengunin er mikil til að mynda í leikskólum og skólum.

Þá segir hann víða sérstaka fræðslu hafa farið fram í skólum til að draga úr hræðslu hjá börnum á svæðinu við eldgosið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.