Innlent

Valdið íslenskum neytendum töluverðu tjóni

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar

Samkeppniseftirlitið hefur kært ellefu starfsmenn Samskipa og Eimskips til sérstaks saksóknara fyrir stórfelld brot á samkeppnislögum, en Ríkisútvarpið greindi frá málinu í gær.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, staðfesti í samtali við fréttastofu í dag að málið væri til rannsóknar hjá embættinu, en vildi ekki tjá sig um málið að öðru leyti. Hins vegar liggur fyrir að meint brot eru stórfelld og geta varðað allt að sex ára fangelsi.

Samkvæmt kæru eiga félögin að hafa um árabil haft með sér ólöglegt samráð sem sé til þess fallið að valda almenningi í landinu og atvinnulífinu miklum fjárhagslegum skaða. Félögin hafi skipt á milli sín stærstu viðskiptavinunum í þeim tilgangi að halda uppi verði. Meint brot eru heimfærð undir 10. gr. samkeppnislaga en greinin bannar alla samninga og samstilltar aðgerðir sem hafa það að marmiði eða leiði til þess að komið sé í veg fyrir samkeppni, hún sé takmörkuð eða henni raskað.

„Þetta leiðir að sjálfsögðu til hærra verðs, og neytendur borga þegar upp er staðið,“ segir Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna.

Jóhannes segir málið sérstaklega alvarlegt, enda flytji Íslendingar inn svo stóran hluta af sinni neysluvöru.

„En miðað við þá lýsingu sem að maður hefur heyrt, þá er ekki nokkur vafi á því að þetta hefur valdið íslenskum neytendum töluverðu tjóni,“ segir Jóhannes.

Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Samskipa, og Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, eru á meðal þeirra sem kærðir eru í málinu en þeir vildu ekki veita fréttastofu viðtal í dag. Fram kemur í yfirlýsingum frá fyrirtækjunum í dag að þau neiti því alfarið að hafa gerst brotleg við ákvæði samkeppnislaga. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×