Íslenski boltinn

Átta marka veisla í Kópavogi | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pepsi-deild karla í fótbolta fer aftur af stað í kvöld eftir frí vegna Verslunamannahelgarinnar. Fjórir leikir eru á dagskrá, en tveimur er frestað vegna þátttöku FH og Stjörnunnar í Evrópudeildinni.

Fjögur efstu liðin áttu að mætast innbyrðist, en leikur Víkings og Stjörnunnar annars vegar og KR og FH hins vegar var frestað og fara þeir fram síðar í mánuðinum.

Öllum fjórum leikjum kvöldsins verða gerð skil í Pepsi-mörkunum sem eru á dagskrá á Stöð 2 Sport HD klukkan 22.00 í kvöld.

Einn af leikjum kvöldsins er viðureign Breiðabliks og Keflavíkur á Kópavogsvelli, en í spilaranum hér að ofan má sjá mörkin úr frábærum leik liðanna í Pepsi-deildinni frá því 2009, sumarið sem Breiðablik varð bikarmeistari.

Keflvíkingar komust í 2-0 með mörkum Hauks Inga Guðnasonar og Magnúsar Sverris Þorsteinssonar, en Haukur Ingi, sem er aðstoðarþjálfari Fylkis í dag, verður með sína menn í Árbænum þar sem þeir taka á móti ÍBV klukkan 18.00.

Mínútu eftir að Magnús Sverrir skoraði, nánar til tekið á 15. mínútu, minnkaði Alfreð Finnbogason muninn fyrir Breiðablik, en hann var í lok tímabilsins kjörinn efnilegasti leikmaður deildarinnar. Kristinn Steindórsson jafnaði svo metin á 58. mínútu.

Blikum héldu engin bönd í seinni hálfleik, en ellefu mínútum eftir að Kristinn skoraði bætti Haukur Baldvinsson við þriðja markinu. Haukur fullkomnaði svo frábæra endurkomu Breiðabliks með öðru marki sínu og fjórða marki liðsins á 70. mínútu leiksins.

En Keflvíkingar lögðu ekki árar í bát. Magnús Þórir Matthíasson, sem hefur gengið í endurnýjun lífdaga sem sókndjarfur bakvörður hjá Keflavík í sumar, minnkaði muninn í 4-3 á 78. mínútu og miðvörðurinn Bjarni Hólm Aðalsteinsson jafnaði svo leikinn með glæsilegu marki úr teignum á 85. mínútu leiksins.

Það er vonandi fyrir hlutlausa að leikurinn verði jafnskemmtilegur í kvöld, en bæði lið þurfa á sigri að halda. Keflvíkingar hafa ekki unnið í fjórum síðustu leikjum sínum í deildinni og Blikar daðra enn við falldrauginn, fjórum stigum frá fallsæti.

Leikir kvöldsins:

18.00 Þór - Fram, Þórsvelli

18.00 Fylkir - ÍBV, Fylkisvelli

19.15 Breiðablik - Keflavík, Kópavogsvelli

19.15 Valur - Fjölnir, Vodafonevelli

22.00 Pepsi-mörkin á Stöð 2 Sport




Fleiri fréttir

Sjá meira


×