Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport HD og hefst útsendingin klukkan 19.45. Pepsi-mörkin fara svo yfir þann leik sem og hina fimm í sjöttu umferðinni klukkan 22.00 í kvöld.
Leikir Blika og Stjörnunnar hafa verið skemmtilegir undanfarin ár. Blikar tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn á gervigrasinu í Garðabæ í lokaumferðinni 2010 og næstu tvö ár fékk Stjarnan tækifæri til að tryggja sér Evrópusæti í lokaumferðinni á móti Breiðabliki í Kópavoginum.
Blikar stóðu í bæði skiptin í vegi fyrir Stjörnunni sem komst ekki í Evrópukeppni fyrr en síðasta haust þegar liðið endaði í þriðja sæti Pepsi-deildarinnar.
Tímabilið 2011 tapaði Stjarnan, 4-3, á Kópvogsvellinum en árið 2012 töpuðu Stjörnumenn 2-0 þar sem Nichlas Rohde skoraði bæði mörkin.
Rohde skoraði fyrra markið strax á 10. mínútu eftir glæsilega sendingu Elfar Árna Aðalsteinssonar og það síðara skoraði Daninn eftir undirbúning Tómasar Óla Garðarssonar.
Leikurinn sprakk svo endanlega í höndunum á Stjörnunni þegar Blikinn í röðum Garðbæinga, Ellert Hreinsson, fékk rautt spjald á 71. mínútu. Ingvar Þór Kale, sem ver mark Víkings í dag, lokkaði Ellert í atburðarrás sem endaði með því að Ellert fékk að líta rauða spjaldið.
Ellert yfirgaf Stjörnunnar sama haust og gekk aftur í raðir Blika en hann skoraði sex mörk í 19 leikjum í fyrra. Hann er aftur á móti ekki kominn á blað í deildinni í ár.
Mörkin, rauða spjaldið og önnur atvik úr þessum skemmtilega leik frá því 2012 má sjá í myndbandinu hér að neðan.