Íslenski boltinn

Evrópudraumar Stjörnunnar gerðir að engu í Kópavogi | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ellert og Ingvar berjast um boltann en þeir áttu eftir að takast á í leiknum.
Ellert og Ingvar berjast um boltann en þeir áttu eftir að takast á í leiknum. Vísir/vilhelm

Ólafur Kristjánsson stýrir Breiðabliki í síðasta sinn í kvöld þegar liðið tekur á móti Stjörnunni á Kópvogsvellinum klukkan 20.00 í 6. umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta.

Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport HD og hefst útsendingin klukkan 19.45. Pepsi-mörkin fara svo yfir þann leik sem og hina fimm í sjöttu umferðinni klukkan 22.00 í kvöld.

Leikir Blika og Stjörnunnar hafa verið skemmtilegir undanfarin ár. Blikar tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn á gervigrasinu í Garðabæ í lokaumferðinni 2010 og næstu tvö ár fékk Stjarnan tækifæri til að tryggja sér Evrópusæti í lokaumferðinni á móti Breiðabliki í Kópavoginum.

Blikar stóðu í bæði skiptin í vegi fyrir Stjörnunni sem komst ekki í Evrópukeppni fyrr en síðasta haust þegar liðið endaði í þriðja sæti Pepsi-deildarinnar.

Tímabilið 2011 tapaði Stjarnan, 4-3, á Kópvogsvellinum en árið 2012 töpuðu Stjörnumenn 2-0 þar sem Nichlas Rohde skoraði bæði mörkin.

Rohde skoraði fyrra markið strax á 10. mínútu eftir glæsilega sendingu Elfar Árna Aðalsteinssonar og það síðara skoraði Daninn eftir undirbúning Tómasar Óla Garðarssonar.

Leikurinn sprakk svo endanlega í höndunum á Stjörnunni þegar Blikinn í röðum Garðbæinga, Ellert Hreinsson, fékk rautt spjald á 71. mínútu. Ingvar Þór Kale, sem ver mark Víkings í dag, lokkaði Ellert í atburðarrás sem endaði með því að Ellert fékk að líta rauða spjaldið.

Ellert yfirgaf Stjörnunnar sama haust og gekk aftur í raðir Blika en hann skoraði sex mörk í 19 leikjum í fyrra. Hann er aftur á móti ekki kominn á blað í deildinni í ár.

Mörkin, rauða spjaldið og önnur atvik úr þessum skemmtilega leik frá því 2012 má sjá í myndbandinu hér að neðan.


Tengdar fréttir

Ólafur: Eins og hver annar leikdagur

Ólafur Kristjánsson fær eitt tækifæri til viðbótar til að vinna deildarleik með Breiðablik í sumar áður en hann yfirgefur félagið.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.