Enski boltinn

Stjóri Kára framlengir

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Steve Evans er að gera góða hluti með Rotherham.
Steve Evans er að gera góða hluti með Rotherham. Vísir/Getty
Steven Evans, hinn litríki stjóri enska knattspyrnufélagsins Rotherham, hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning. Frá þessu er greint á vef Sky Sports.

Evans er búinn að koma Rotherham upp um tvær deildir á tveimur árum en síðastliðinn sunnudag vann liðið Leyton Orient í vítaspyrnukeppni í úrslitaleik umspilsins um sæti í B-deildinni.

„Ég er mjög stoltur að halda áfram minni vinnu fyrir Rotherham og vinna fyrir stjórnarformanninn Tony Stewart og okkar dyggu stuðningsmenn. Það var auðveld ákvörðun að halda áfram störfum hér. Það tók bókstaflega tvær mínútur að komast að samkomulagi um nýjan samning. Svo auðvelt var það,“ segir Evans.

Landsliðsmiðvörðurinn Kári Árnason hefur verið lykilmaður í Rotherham-liðinu undanfarin tvö ár en hann átti frábæran leik á sunnudaginn þegar liðið komst upp um deild.

Hann er aftur á móti ekki búinn að fá nýjan samning og veit ekki hvort hann verður áfram hjá liðinu næsta vetur þegar það tekur slaginn í næstefstu deild Englands.

Kári er núna staddur með íslenska landsliðinu í Insbruck þar sem það mætir Austurríki í vináttulandsleik á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×