Innlent

Lög á verkfall Herjólfsmanna samþykkt

Vísir/Óskar Friðriksson
Frumvarp Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra um að fresta verkfallsaðgerðum undirmanna á Herjólfi til fimmtánda september, var samþykkt á Alþingi upp úr miðnætti með 29 atkvæðum gegn 13, en fimm sátu hjá.

Fundi um málið var ítrekað frestað í gærkvöldi, en hann hófst loks um ellefu leytið. Þá hafði umhverfis- og samgöngunefnd fjallað um frumvarpið og meðal annars kallað til Jónas Garðarsson formann Sjómannafélags Íslands og Gylfa Arnbjörnsson framkvæmdastjóra Alþýðusambandsins.

Árni Páll Árnason þingmaður Samfylkingarinnar mælti fyrir áliti minnihluta nefndarinnar og sagðist ekki telja efnislegar forsendur til að fallast á samþykkt laganna. Hann sagðist óttast fordæmisgildi þeirra og benti á að verkfall framhaldsskólakennara og stjórnenda í framhaldsskólum stæði yfir, og yfirvofandi væru verkfallsaðgerðir starfsmanna ISAVIA.

Á heimasíðu Herjólfs segir að skipið muni sigla tvær ferðir til Landeyjahafnar í dag.


Tengdar fréttir

Eyjamenn hvattir til að þeyta bílflautur þegar Herjólfur kemur til hafnar

Aðgerðarhópur, sem nefnist Braveheart, hvetur til þess á heimasíðu Eyjafrétta að Eyjamenn fjölmenni niður á bryggju við komu Herjólfs frá Þorlákshöfn í dag og þeyti þar bílflalutur sínar til að mótmæla seinagangi í samningum undirmanna á Herjólfi og útgerðarinnar.

Lög á Herjólfsdeiluna í dag

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra mun væntanlega leggja fram frumvarp um lög á kjaradeilu starfsmanna Herjólfs í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×