Innlent

Lög á Herjólfsdeiluna í dag

Heimir Már Pétursson skrifar
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra mun væntanlega leggja fram frumvarp um lög á kjaradeilu starfsmanna Herjólfs í dag.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra mun væntanlega leggja fram frumvarp um lög á kjaradeilu starfsmanna Herjólfs í dag. vísir/daníel
Líkur eru á að innanríkisráðherra leggi fram frumvarp á Alþingi í dag um að lög verði sett á kjaradeilu starfsmanna Herjólfs, samkvæmt heimildum fréttastofunnar.

Verkfallið hefur staðið frá 5. mars og truflað mjög flutninga á vörum og fólki til og frá vestmannaeyjum sem og á afla fiskiskipa í Eyjum til útflutnings. Síðast var fundað í deilunni á föstudag, en nýr fundur hefur ekki verið boðaður milli deiluaðila.

Samkvæmt heimildum fréttastofu mun frumvarp Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra ganga út á tímabundið bann við verkfallsaðgerðunum þannig að deiluaðilar fái tíma til að ná samningum án truflunar á samgöngum við Vestmannaeyjar.

Frumvarpið verður væntanlega kynnt þingflokkum stjórnarflokkanna og svo stjórnarandstöðunnar í dag og búast má við að óskað verði afbrigða til að taka það á dagskrá Alþingis strax í dag, eins og yfirleitt hefur verið gert þegar frumvörp um lög á kjaradeilur hafa verið lögð fram. Þarna er ef til vill komin skýringin á því að ríkisstjórnin ákvað að hætta við að mæla fyrir skuldaniðurfellingarfrumvörpum sínum á Alþingi í dag.

Búast má við að stjórnarandstaðan að hluta að minnsta kosti, leggist gegn lagasetningunni, en haft er eftir Árna Páli Árnasyni formanni Samfylkingarinnar og Svandísi Svavarsdóttur í Morgunblaðinu í dag að þau séu almennt á móti lagasetningu á kjaradeilur og þung rök þurfi að vera fyrir slíkri lagasetningu.

Hér má sjá tilkynningu innanríkisráðherra vegna framlagningar frumvarpsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×