Innlent

Sakar ríkisstjórnina um að skikka Herjólfsmenn til að vinna næturvinnu

Höskuldur Kári Schram skrifar
Sjómenn eru ósáttir við þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að setja lög á verkfallsaðgerðir undirmanna á Herjólfi. Jónas Garðarsson hjá Sjómannafélagi Íslands segir að stjórnarþingmenn og ráðherrar hafi ekki viljað kynna sér kröfugerð sjómanna.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun frumvarp innanríkisráðherra um að setja lög á verkfallsaðgerðir undirmanna á Herjólfi. Verkfallið hófst fyrir mánuði og hefur valdið verulegum truflunum á samgöngum milli lands og Eyja. Frumvarp ráðherra gerir ráð fyrri því að aðgerðum verði frestað til 15. september næstkomandi.

Jónas Garðarsson hjá Sjómannafélagi Íslands furðar sig á þessari ákvörðun. „Sjómenn á Herjólfi eru í yfirvinnubanni þannig að það á að skikka fólk til að vinna næturvinnu um borð í Herjólfi. Við höfum reynt að ná í stjórnarþingmenn en þeir eru allir í felum. Við höfum óskað eftir fundi í samgöngunefnd en þeir sjá ekki ástæðu til að tala við okkur. Þannig að það er verið að setja lög á Herjólf en ráðamenn þjóðarinnar hafa ekki talað við samninganefnd Herjólfsmanna,“ segir Jónas.

Hann segir að sjómenn séu ósáttir við þessa ákvörðun. „Sérstaklega þar sem stjórnarherrarnir hafa ekki leitað efnisraka og kannað hvað er í þessari kröfugerð okkar,“ segir Jónas. „Fólkið á Herjólfi á rétt á sambærilegum kjarabótum og félagar þeirra sem vinna sambærileg störf á öðrum skipum. Það er það sem verið er að fara fram á.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×