Innlent

Röskva skorar á ríkisstjórnina að grípa til aðgerða

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Röskva harmar að starfsmenn skólans sjái sig knúna til að boða til verkfalls.
Röskva harmar að starfsmenn skólans sjái sig knúna til að boða til verkfalls. vísir/anton
Röskva, samtök félagshyggjufólks við Háskóla Íslands, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna yfirvofandi verkfalls kennara við skólann. Þar er það harmað að starfsmenn skólans sjái sig knúna til að boða til verkfalls.

„Hugur okkar er með starfsmönnum háskólans sem berjast fyrir bættum kjörum. Ef háskólinn á að vera leiðandi afl í menntasamfélagi, innlendu sem erlendu, er það réttlát krafa að kennurum og öðru starfsfólki séu greidd mannsæmandi laun. Það er óviðunandi að kennarar séu ekki metnir að verðleikum því störf þeirra móta framtíðarhorfur nútímasamfélags.“

Samtökin skora á ríkisstjórnina að „láta af atlögu sinni að menntastofnunum landsins og grípa tafarlaust til aðgerða til að rétta hlut þeirra“.

Yfirlýsingin í heild sinni:

Stærsti vinnustaður landsins lokar

Röskva harmar að starfsmenn Háskóla Íslands sjái sig knúna til að boða til verkfalls. Hugur okkar er með starfsmönnum háskólans sem berjast fyrir bættum kjörum. Ef háskólinn á að vera leiðandi afl í menntasamfélagi, innlendu sem erlendu, er það réttlát krafa að kennurum og öðru starfsfólki séu greidd mannsæmandi laun. Það er óviðunandi að kennarar séu ekki metnir að verðleikum því störf þeirra móta framtíðarhorfur nútímasamfélags.

Verkfall háskólakennara hefur auk þess mikil áhrif á stöðu nemenda við Háskóla Íslands. Óvissa skapast varðandi skil lokaverkefna og lokapróf í vor. Útskriftarnemar sem stefna á framhaldsnám eru bundnir af því að útskrifast í vor til þess að geta haldið áfram í námi og að auki skapast óvissa um greiðslur námslána til stúdenta.

Ríkisstjórnin verður að svara því hvernig framtíðarsýn hún hefur fyrir háskólamenntað fólk. Röskva skorar á núverandi ríkisstjórn að láta af atlögu sinni að menntastofnunum landsins og grípa tafarlaust til aðgerða til að rétta hlut þeirra. Það er mikilvægt að sátt náist um kjör háskólakennara og að ríkið rísi undir þeim réttmætu kröfum sem Félag háskólakennara leggur til.

Fjárfesting í menntun er forsenda framgangs og árangurs. Rétt forgangsröðun í fjárlögum til menntakerfisins er nauðsynleg eigi Ísland að viðhalda stöðu sinni sem samfélag þar sem ungu fólki býðst framhaldsmenntun og vinna sem er samkeppnishæf í alþjóðlegu samhengi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×