Innlent

"Atkvæði 18,8% kjósenda eru notuð sem réttlæting þess að færa fasteignakaupendum hundrað milljónir úr ríkissjóði“

Gunnar Smári telur hæpið að stjórnarflokkarnir hafi pólitískt umboð til að færa fasteignaeigendum milljarða úr ríkissjóði.
Gunnar Smári telur hæpið að stjórnarflokkarnir hafi pólitískt umboð til að færa fasteignaeigendum milljarða úr ríkissjóði.
Gunnar Smári Egilsson blaðamaður hefur reiknað út hversu margir studdu niðurfellingu fasteignalána með atkvæðum sínum í síðustu alþingiskosningum. Hann greinir frá niðurstöðum sínum í ítarlegri Facebookfærslu nú í morgun.

„Ef við skiptum upp fylgi Framsóknar í kosningunum í fyrra og segjum að Gamla Framsókn (landsbyggðarsjónarmið, genískt Framsóknarfólk o.s.frv.) hafi fengið 13% atkvæða þá aflaði Nýja Framsókn 11,4% aukafylgis með loforðum um að laga forsendubrestinn með peningum frá svokölluðum hrægammasjóðum,“ segir Gunnar Smári.

„Forsendubrestsframboð“ með 18,8 prósent

Hann segir önnur framboð, sem lögðu megináherslu á að rétta hlut fasteignaeigenda (Hægri grænir, Flokkur heimilanna, Sturla Jónsson og Dögun) hafa fengu samtals 7,4% fylgi. „Samtals fengu forsendubrestsframboðin því 18,8% fylgi,“ skrifar Gunnar Smári. „Til samanburðar fengu ný framboð sem alls ekki lögðu þessa áherslu á vanda fasteignaeigenda umfram aðra hópa samtals 15,9% fylgi (Björt framtíð, Húmanistaflokkurinn, Lýðræðisvaktin og Píratar).“

Og Gunnar Smári heldur áfram að reikna: „Flokkar byggðir á hefðbundnari gildum íslenskra stjórnmála (Gamla Framsókn, Sjálfstæðisflokkurinn, Regnboginn, Landsbyggðarflokkurinn, Alþýðufylkingin, Samfylkingin og VG) fengu síðan 63,8% fylgi.“

Fjármunum ausið til millistéttafólks

Niðurstaðan Gunnars Smára og spurning er þessi: „Það sem ég skil ekki; er hvers vegna atkvæði 18,8% kjósenda eru notuð sem réttlæting þess að færa fasteignakaupendum hundrað milljónir úr ríkissjóði í formi framlaga og tapaðra skatttekna; á sama tíma og stuðningskerfi þeirra hópa sem hingað til hefur verið sátt um að fengju aðstoð hins opinbera er brotið niður; sjúkir, fatlaðir, aldraðir, fátækir. Hið hefðbundna velferðarkerfi, heilbrigðis- og menntakerfi, almannatryggingar og félagslegt húsnæðiskerfi; er látið grotna niður og rotna á meðan fjármunum er ausið til millistéttarfólks og hinna efnameiri. Það er verið að taka fé frá hinum þurfandi og færa þeim sem eru sjálfbjarga. Þetta er ömurlegt. Og skammarlegt.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×