Enski boltinn

Mourinho: Man. City getur unnið Barcelona

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Af hverju ekki?
Af hverju ekki? Vísir/Getty
José Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, hefur fulla trú á andstæðingum sínum í ensku úrvalsdeildinni, Manchester City og Arsenal, þegar kemur að 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar og telur að bæði lið geti komist áfram.

Bæði lið eiga erfið verkefni fyrir höndum í seinni leikjum sínum. City tapaði, 2-0, fyrir Barcelona á heimavelli og Arsenal með sömu tölum gegn Bayern München. Bæði lið misstu mann af velli.

Þrátt fyrir það segir Portúgalinn að liðin geti snúið taflinu sér í hag og komist áfram en viðurkennir þó að Arsenal eigi erfiðara verkefni fyrir höndum.

„Getur City unnið Barcelona? Barcelona tapaði gegn Valladolid um helgina og gegn Valencia á heimavelli um daginn. Af hverju ætti City ekki að geta unnið Barcelona?“ svaraði, eða spurði, Mourinho blaðamenn eftir 4-0 sigur Chelsea á Tottenham í gær.

„Getur Arsenal unnið Bayern 2-0 á útivelli? Það er erfitt. Líklega erfiðasta verkefnið sem nokkurt lið á fyrir höndum en það getur það,“ sagði Mourinho.

Chelsea gerði 1-1 jafntefli við Galatasaray í fyrri leik liðsins í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar og á seinni leikinn eftir í næstu viku á heimavelli.

Liðið er með sjö stiga forystu í ensku úrvalsdeildinni eftir sigurinn á Tottenham en Arsenal á leik til góða á liðið og City tvo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×