Enski boltinn

Wigan gerði City aftur óleik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vísir/Getty
Bikarmeistarar Wigan gerðu sér lítið fyrir og slógu út Manchester City í 8-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í dag með 2-1 sigri á Etihad-leikvanginum.

City náði þar með ekki að hefna ófaranna eftir bikarúrslitaleikinn í fyrra er Wigan vann óvæntan 1-0 sigur á Wembley.

Wigan varð síðasta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar og mætir þá Arsenal. Sheffield United og Hull eigast við í hinni undanúrslitaviðureigninni.

Martin Demichelis er væntanlega ekki í neinu sérstöku uppáhaldi hjá stuðningsmönnum Manchester City þessa daganna en mistök hans reyndust City enn og aftur dýrkeypt. Á 26. mínútu braut Demichelis á Marc-Antoine Fortune innan vítateigs og úr vítaspyrnunni skoraði Jordi Gomez.

Það voru svo ekki liðnar nema tvær mínútur af seinni hálfleik þegar Wigan tvöfaldaði forskot sitt. James Perch skoraði þá af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá James McArthur.

Manuel Pellegrini gerði skömmu síðar þrefalda skiptingu og það var fyrst þá sem City vaknaði til lífsins.

Samir Nasri minnkaði muninn eftir 68. mínútna leik og eftir það héldu leikmenn City meira og minna til í vítateig Wigan. Fleiri urðu mörkin hins vegar ekki og það verður því Wigan sem mætir Arsenal í undanúrslitum bikarkeppninnar 13. apríl á Wembley.

Wigan, sem situr í 7. sæti ensku B-deildarinnar, á því enn möguleika á að verja bikarmeistaratitilinn sem liðið vann í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×