Innlent

Greiddu IKEA 650 þúsund - "Sá sem er saklaus borgar varla svona kröfu“

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Forsvarsmönnum IKEA þótti rannsókn málsins ganga hægt hjá lögreglu og gerði IKEA því kröfu á fólkið upp á 650 þúsund krónur, sundurliðaða á þessa fimm einstaklinga.Á myndinni er Þórarinn Ævarsson, framkvæmdarstjóri IKEA.
Forsvarsmönnum IKEA þótti rannsókn málsins ganga hægt hjá lögreglu og gerði IKEA því kröfu á fólkið upp á 650 þúsund krónur, sundurliðaða á þessa fimm einstaklinga.Á myndinni er Þórarinn Ævarsson, framkvæmdarstjóri IKEA.
„Við stöndum við það sem við höfum áður sagt í þessu máli, við teljum að þetta fólk hafi stolið frá okkur vörum fyrir milljónir,“ segir Þórarinn Ævarsson, framkvæmdarstjóri IKEA á Íslandi. 

Í morgun voru þingfest tvö mál í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem fjórar manneskjur voru ákærðar fyrir að hafa svikið út vörur í IKEA. Tvö voru ákærð fyrir svik upp á um 250 þúsund krónur og tilraun til að þess að svíkja út vörur fyrir um 40 þúsund krónur. Þau játuðu bæði og eins og fram kom í frétt Vísi í morgun hafa þau greitt það sem upp var sett af hálfu IKEA. Hin tvö voru ákærð fyrir að svíkja út vörur fyrir um 80 þúsund krónur en þau neita bæði sök. Mál á hendur einni konunni var fellt niður.

Fullviss um að þau tóku fleiri vörur

„Þetta eru skil á vörum upp á 3,7 milljónir í 95 tilvikum. Þetta er allt saman illa fengið og tekið ófrjálsri hendi,“ segir Þórarinn.  

„Það vakti athygli okkar þegar fjórum stólum, sem aldrei höfðu verið seldir, var skilað. Það þótti okkur sérstakt og það var kveikjan að því að við fórum að skoða viðskipti þessa fólks við IKEA. Þau hafa aldrei getað útskýrt þessi kaup á stólunum,“ segir Þórarinn.  

Þá hafi til dæmis komið í ljós að fólkið var að koma endalaust og skila sama skápnum eða eins skáp og það hafði áður skilað. „Það er ekkert eðlilegt við það.“

„Þótt ég sé fullviss um að þau hafi tekið fleiri vörur en ákært er fyrir og aðrir sem skoða málið, þá dugar það ekki fyrir lögreglu og saksóknara til þess að fara með málið fyrir dóm,“ segir Þórarinn.

Fólkið greiddi IKEA 650 þúsund krónur

IKEA fór í einkamál við hópinn sem telur fimm manns að þeirra mati. Forsvarsmönnum IKEA þótti rannsókn málsins ganga hægt hjá lögreglu og gerði IKEA því kröfu á fólkið upp á 650 þúsund krónur, sundurliðaða á þessa fimm einstaklinga.

„Þau borguðu strax og eyddu þannig málinu. Sá sem er saklaus borgar varla svona kröfu,“ segir Þórarinn en IKEA gerði bara kröfu um þau brot sem hægt var að sanna með myndbandsupptökum. Af elstu tilvikunum sé engum myndbandsupptökum til að dreifa. Tjón IKEA sé sannanlega meira en þessum 650 þúsund krónum nemi

„Annað sem er sérstakt er að parið sem ákært var fyrir svik upp á um 80 þúsund krónur og neitaði sök, það hefur þegar greitt IKEA tæpar 300 þúsund krónur til baka til þess að komast hjá því að mæta í dómssal,“ segir Þórarinn. Það sé vægast sagt metnaðarlaust hjá lögreglunni að ákæra aðeins vegna 80 þúsund króna þegar fólkið hafi svo gott sem játað á sig stærra brot með því að greiða IKEA.

„Ég hef verið að spyrjast um hvar málið sé statt hjá lögreglu en ekki fengið nein svör. Ég var því mjög undrandi þegar ég las um það á Vísi í morgun að málið væri komið fyrir héraðsdóm,“ segir Þórarinn. 


Tengdar fréttir

Milljónaþjófnaður í Ikea

IKEA hefur lagt fram í kæru á hendur fjölmörgum aðilum sem grunaðir eru um stórfelldan þjófnað í verslun fyrirtækisins. Á meðal sakborninga eru tveir lögfræðingar og framkvæmdastjóri fyrirtækis í ferðaþjónustu.

Vellauðugir þjófar á kreiki í IKEA

Lögfræðingar, eigandi lögfræðistofu, framkvæmdastjóri fyrirtækis í ferðaþjónustu og hjúkrunarfræðingur eru meðal þeirra sem eru kærð til lögreglu fyrir meintan stórfelldan og skipulagðan þjófnað í IKEA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×